132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mars 2006.

Styrkir til kjörforeldra ættleiddra barna.

522. mál
[13:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Hlynur Hallsson) (Vg):

Frú forseti. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um styrki til kjörforeldra ættleiddra barna frá útlöndum. Nú er rúmlega mánuður síðan ég lagði þá fyrirspurn fram og hafa ýmsir hlutir gerst í millitíðinni og reyndar mjög ánægjulegir hlutir.

Fyrst ber að telja framlagningu þingsályktunartillögu hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur og átta annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokks. Reyndar var það í þriðja skiptið sem sú þingsályktunartillaga var lögð fram þinginu og í þetta skipti var henni beint til hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Síðan komu ánægjuleg tíðindi úr félagsmálaráðuneytinu þar sem fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram tillögu um stuðning við kjörforeldra ættleiddra barna frá útlöndum á ríkisstjórnarfundi. Það er hins vegar full ástæða til að fá þessa umræðu inn í þingið.

Síðustu breytingarnar eru auðvitað þær að stólaskipti urðu innan ríkisstjórnarinnar og vil ég óska nýjum hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með nýtt starf og nýtt hlutverk. Er ágætt að hæstv. félagsmálaráðherra fái þá að svara þessari fyrirspurn og fara yfir það hvernig standi til að styrkja kjörforeldra ættleiddra barna frá útlöndum, hvort hann geti nefnt einhverjar upphæðir í þeim efnum, hvort við eigum að miða okkur við Norðurlöndin að þessu leyti og hversu langt þessi undirbúningsvinna er komin í ráðuneytinu.

Það hlýtur að teljast sanngjarnt og eðlilegt að íslenska ríkið styrki kjörforeldra til samræmis við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Bent hefur verið á að það að ættleiða barn frá útlöndum kosti á bilinu 1–1,5 millj. kr. Alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum styrkir ríkið foreldra til þess að þeir eigi jafnan kost á að geta ættleitt börn vegna þess að 1–1,5 millj. kr. er há upphæð og auðvitað ekki á færi tekjulágra foreldra.

Þetta mál virðist vera í nokkuð góðum farvegi en mér þætti vænt um að fá svör frá hæstv. félagsmálaráðherra við þessum spurningum.