132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[13:02]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég lauk fyrri ræðu minni fyrir hádegi þar sem ég var kominn að þætti í norrænu samstarfi, ekki minnst innan þess samstarfs sem á sér stað innan Norrænu ráðherranefndarinnar, sem eru sjávarútvegsmálin. Áður hafði ég aðeins talað um byggðamál en nú er komið að sjávarútvegsmálum.

Sjávarútvegsmálin eru að sjálfsögðu byggðamál í eðli sínu og skyldi engan undra, því að sjávarútvegurinn er mikilvæg atvinnugrein og rétt eins og landbúnaður og skógrækt og mörg önnur matvælamál, auðlindanýting. Þessi mál skipta mjög miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á hinum Norðurlöndunum. Það er m.a. ástæðan fyrir því að minn flokkur, Frjálslyndi flokkurinn, leggur svo mikla áherslu á sjávarútvegsmálin að við teljum að þar séum við öðrum þræði að tala um lykilþátt í byggðamálunum sem við teljum að sé ákaflega mikilvægur.

Ég minntist á það í lok fyrri ræðu minnar að margt af því starfi sem unnið hefur verið innan Norrænu ráðherranefndarinnar hvað varðar sjávarútveg hefði verið til mikillar fyrirmyndar. Ég hygg að ég tali þar jafnvel af smáþekkingu. Ég hef fylgst með því um þó nokkuð margra ára skeið og sótti ráðstefnur meðan ég starfaði sem blaðamaður fyrir norskt blað í sjávarútvegsgeiranum. Þá var ég oft settur í það að fylgjast einmitt með því sem verið var að vinna innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Það gleður mig að sjá að þetta þróttmikla starf heldur áfram. Þó svo að umfjöllunin um sjávarútvegsmálin sé kannski frekar stutt í skýrslunni, aðeins ein síða, bls. 45, þá sést þegar grafið er aðeins ofan í það og skoðað að verið er að vinna að mörgu sem mér finnst mjög mikilvægt, til að mynda skipulagi fiskveiða, bæði með tilliti til efnahagslegra atriða og vistkerfisnálgunar. Ég tel að það hafi vantað í stjórn fiskveiða, kannski ekki síst á Íslandi, að beitt væri einhvers konar vistfræðilegri nálgun, að við hugsuðum meira um vistfræðina þegar við værum að tala um nýtingu þessarar mikilvægu náttúruauðlindar.

Í gær voru hér áhugaverðar umræður á milli nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna og hæstv. sjávarútvegsráðherra um þessa vistfræðilegu þætti. Ég tel að þetta skipti mjög miklu máli. Ég hef fylgst mjög vel með þessari umræðu og tel að augu manna séu að opnast mjög fyrir þessu á öðrum Norðurlöndum, ekki síst norður í Barentshafi, þar sem Norðmenn hafa dregið vagninn og Rússar líka. Einnig í Færeyjum þar sem menn hafa verið að ná mjög svo áhugaverðum árangri í fiskveiðistjórn. Færeyingar hafa staðið þar vel að málum og með ábyrgum hætti. Þrátt fyrir að margir hafi talið að þeir færu rangt að hlutunum er ekki að sjá að svo sé með neinum hætti, því að afrakstur bolfisksstofna þar er með ágætum. Að sjálfsögðu gengur það í bylgjum eins og gengur en þegar á heildina er litið gengur þeim mjög vel með sitt kerfi þó svo að þeir hafi valið að stýra nýtingunni þar með öðrum aðferðum en til að mynda við höfum gert umhverfis Ísland eða í Norðursjó og síðan norður í Barentshafi.

Innan norræns samstarfs tel ég að einmitt þarna sé í raun og veru mjög mikið fyrir okkur Íslendinga að sækja til frænda okkar og vina á Norðurlöndunum. Kynnast því hvað þeir eru að hugsa, hvaða rannsóknir þeir eru að stunda, vinna að rannsóknum í samstarfi við þá og reyna þannig að betrumbæta það sem við erum að gera hér heima umhverfis Ísland.

Ég verð að fá að koma því að, virðulegi forseti, að afdrif þingsályktunartillögu sem ég flutti í haust, um að við Íslendingar skipuðum nefnd til að skoða með hlutlausum hætti reynslu Færeyinga af sinni fiskveiðistjórn, hafa valdið mér mjög miklum vonbrigðum. Skipa nefnd óháðra aðila til að skoða reynslu þeirra og skila um það skýrslu svo við Íslendingar gætum lært hugsanlega eitthvað af því. Ég mælti fyrir þessari þingsályktunartillaga í þinginu, hún fór síðan til sjávarútvegsnefndar og þar hefur hún því miður verið stöðvuð og fæst ekki afgreidd út úr nefndinni. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, hefur stöðvað það, hann hefur reyndar þóst bjóða upp á það að málið yrði afgreitt úr nefndinni og sent beint til ríkisstjórnarinnar. En ég sem flutningsmaður hef hafnað því alfarið, því að ég veit af sárri og biturri reynslu þegar ég hef lesið gömul þingtíðindi að það að senda þingsályktunartillögur til ríkisstjórnarinnar er svona álíka og að senda þær beint á bálið. Þær fara til ríkisstjórnarinnar og síðan verður fátt eða ekkert úr þeim. Ég get talið upp nokkur dæmi um góð mál sem hafa hlotið þessi örlög.

Þetta voru örlög fyrri þingsályktunartillögu um að skoða færeyska fiskveiðistjórnarkerfið sem hv. þm. Hjálmar Árnason flutti á Alþingi. Hún var send ríkisstjórninni og hefur ekki sést síðan, hvorki heyrst af henni né spurst. Þá fór þingsályktunartillaga nokkurra stjórnarþingmanna og núverandi ráðherra um endurreisn Þingvallaurriðans til ríkisstjórnarinnar og hvarf þar sjónum manna og hefur ekki sést síðan þar til ég fann hana og kom með fyrirspurn um hana í þinginu. Henni var eytt. Hún fór beint í pappírstætarann í Stjórnarráðinu. Síðan fór þingsályktunartillaga um að skoða kosti þess að koma upp sædýrasafni á Íslandi líka beint í þennan virðulega pappírstætara sem ég hygg að sé staðsettur í Stjórnarráðinu. En sá gráðugi tætari mun ekki fá, ef ég fæ einhverju um það ráðið, að komast í tæri við þingsályktunartillöguna sem við í Frjálslynda flokkunum og Jón Gunnarsson, hv. þm. Samfylkingarinnar, mæltum fyrir í haust. Þá skal hún frekar fá að daga uppi í sjávarútvegsnefnd stjórnarmeirihlutanum til skammar og háðungar. En nóg um það, virðulegi forseti.

Þó að slík pólitík sé iðkuð á Íslandi í dag að stjórnvöld vilji ekki reyna að draga lærdóm af því sem frændur okkar og vinir gera vel í nágrannalöndunum vegna þess að stjórnvöld hér eru í einhverri einkennilegri hagsmunagæslu þar sem þjóðarheild er ekki látin ganga fyrir heldur hagsmunir hinna fáu, sem að sjálfsögðu ber að harma, þá verður bara svo að vera. Ég minni einungis á að nú er aðeins rétt rúmlega ár eftir af þessu kjörtímabili og í maí árið 2007 munu vonandi renna upp bjartari og betri tímar.

Ég sagði áðan að ég ætlaði að tala aðeins meira um Svalbarðamálið og þá deilu. Það er afdráttarlaus afstaða okkar í Frjálslynda flokknum að okkur beri að láta hart mæta hörðu í því máli. (Gripið fram í: Eins og í kanínumálinu?) Já, eins og í kanínumálinu, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson, en hann er mikill áhugamaður um kanínur í Vestmannaeyjum eins og sá sem hér stendur. En það er eindregin skoðun okkar að það eigi að láta hart mæta hörðu í Svalbarðamálinu, að það sé kominn tími til að láta á það reyna fyrir alþjóðadómstól hvort Norðmenn hafi rétt til að lýsa yfir þeim yfirráðum sem þeir hafa talið sig hafa á þessu hafsvæði.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson minnist einmitt á það í ræðu sinni áðan að norsk-íslenski síldarstofninn væri í örum vexti. Þetta er deilistofn, flökkustofn sem skiptist á milli Norðurlandaþjóða. Norðmenn eiga sína hlutdeild, við Íslendingar eigum hlutdeild, Færeyingar eiga hlutdeild og síðan bæði Danir og Svíar sem nýta þennan stofn í gegnum Evrópusambandið. Þessi stofn er að hluta til á þessu umdeilda svæði við Svalbarða. Þarna hygg ég að muni reyna mjög á samstarf Norðurlandaþjóðanna þegar kemur að nýtingu á þessum mjög svo mikilvæga og verðmæta flökkustofni. Þarna mun virkilega reyna á samstarf okkar því að ég óttast að deilur verði um skiptingu, veiðar og nýtingu á þessum fiskstofni, ekki síst vegna óbilgirni Norðmanna í norðurhöfum, á Svalbarðasvæðinu, þar sem þeir telja sig hafa rétt til að ákveða hversu mikið aðrar þjóðir megi veiða úr þessum stofni þegar hann er inni á þessu veiðisvæði. Ákvarðanir sem eru gersamlega án nokkurs rökstuðnings. Það eru engin fiskifræðileg rök fyrir því að vera með þessa stæla, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, heldur er þetta eingöngu óbilgirni og yfirgangur af hálfu Norðmanna.

Það má segja að Norðmenn séu á vissan hátt að ganga á lagið, því að við Íslendingar höfum fram til þessa verið allt of veikgeðja í þessum málum. Íslenska ríkisstjórnin hefur ekki staðið nógu fast á rétti okkar Íslendinga þegar kemur að þessum málum, því miður. Norðmenn eru bæði snjallir pólitíkusar og snjallir diplómatar og þeir eru miklir tækifærissinnar. Þegar þetta þrennt fer saman er kannski ekki góðs að vænta í samskiptum við þá. Ég hygg að það verði heldur ekki svo í framtíðinni. Norðmenn hafa t.d. markvisst verið að vígbúast, ef svo má segja, í þessari deilu. Þeir hafa byggt upp mjög fullkominn strandgæsluskipaflota. Ég hygg að engin þjóð í norðurhöfum hafi yfir að ráða jafnfullkomnum flota og þeir. Þeir eiga fjölmörg glæný og stórglæsileg skip sem eru afskaplega vel útbúin, með fallbyssum, radarkerfum og þyrlum um borð. Þarna eru Norðmenn að leggja mjög mikla áherslu á varnaraðgerðir sínar, að verja einmitt hagsmuni sína í norðurhöfum.

Þess vegna kemur það alls ekki á óvart að fyrsta yfirlýsing formanns Norrænu ráðherranefndarinnar skuli einmitt hafa verið sú að formennskulandið Noregur horfi til norðurs. Þarna verðum við Íslendingar að halda vöku okkar. Ég hvet hæstv. samstarfsráðherra okkar Íslendinga, Sigríði Önnu Þórðardóttur, til að láta Norðmenn ekki plata sig til að koma með einhverjar yfirlýsingar sem gætu komið okkur Íslendingum illa því að Norðmenn eru mjög slóttugir. Þeir vilja núna reyna að draga yfirlýsingar upp úr íslenskum ráðherrum, t.d. að fá þá til að viðurkenna með einhverjum hætti að Norðmenn hafi rétt á þessum svæðum. Íslenskir ráðherrar verða að halda vöku sinni og árvekni og gæta sín á að rétta ekki Norðmönnum gagnleg spil upp í hendurnar algerlega að óþörfu. Bæði eru norskir stjórnmálamenn mjög á verði í þessum málum en líka norskir fjölmiðlar. Íslenskir ráðherrar verða að gæta mjög orða sinna á erlendum vettvangi. Ég taldi það til að mynda ámælisvert þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra var í Noregi á dögunum og hélt þar ræðu og var með yfirlýsingar í fjölmiðlum, mjög glannalegar yfirlýsingar, bæði varðandi rétt Norðmanna í norðurhöfum og síðan skiptingu norsk-íslenska síldarstofnsins. Það er alveg óþarfi þegar maður spilar póker við þjóð eins og Norðmenn að sýna þeim spilin sín eða rétta þeim góð spil yfir borðið nánast óumbeðið.

Mig langaði svo aðeins að lokum, virðulegi forseti, að benda á að ég sakna þess að ekki skuli vera neinn kafli í þessari skýrslu sem fjallar um varnarmál. Líklega á það pólitískar skýringar. Norðurlandaþjóðirnar hafa ekki lagt neina áherslu á samvinnu í varnarmálum, enda eru a.m.k. þrjár þeirra í NATO, tvær í Evrópusambandinu og þrjár utan þess. Þetta gerir það náttúrlega að verkum að hlutirnir verða svolítið flóknir þegar kemur að jafnviðkvæmum málum og varnarmálum en ég hygg að þarna gæti einmitt verið ákveðið sóknarfæri fyrir Norðurlandaþjóðirnar til að reyna að stilla saman strengi sína í varnar- og öryggismálum á norðursvæðunum í Norður-Atlantshafi. Þarna gætum við Íslendingar hugsanlega eignast einhver sóknarfæri í ljósi þess að lega okkar í miðju Norður-Atlantshafi gefur okkur ákveðin spil á hendi. Einnig í tengslum við samvinnu á sviði björgunarmála. Ég sé reyndar að í skýrslunni er talað um að það sé fyrir hendi samvinna í þeim svo mjög mikilvæga málaflokki og því ber að fagna. En um leið má spyrja hvort þarna séu ekki líka hugsanleg sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga til að leita samstarfs, að íslenska landhelgisgæslan geti til að mynda náð fram samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir þegar kemur að björgunar- og öryggismálum.

Læt ég þar með lokið umræðu minni um þessa skýrslu.