132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norræna ráðherranefndin 2005.

565. mál
[14:00]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom nokkuð nærri þessari heimspekilega spurningu. Sumir meta bíla, húsnæði eða hlutabréf eða eitthvað slíkt sem sínar verðmætustu eignir. Aðrir meta heilsuna mikils, börn og fjölskyldu. Hv. þingmaður kom þarna með æðra gildi sem er lífið. En það skyldi þó ekki vera að tíminn sé verðmætasta eign hvers manns? Hv. þingmanns, mín, allra hv. þingmanna og allrar þjóðarinnar. Tíminn er verðmætasta eignin og hún minnkar á hverjum degi.

Tíminn sem við höfum í dag er 24 tímum minni heldur en á sama tíma í gær. Þessi tími minnkar og minnkar og það þarf að fara vel með hann. Þetta ætla ég að spyrja hv. þingmann út í: Getur það verið að stjórnarandstaðan sé í málþófi, sé að eyða tíma þingsins, þingmanna, starfsmanna þingsins og áhorfenda í málþóf? Getur verið að hún fari illa með þessa verðmætustu eign sem hverjum manni er gefin?