132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Norrænt samstarf 2005.

574. mál
[15:50]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held áfram með þráðinn þar sem honum sleppti í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að hann tryði því að það væru hagsmunir Íslands að samstarf Norðurlandanna yrði eflt eða væri með styrkum hætti.

Ég er alveg hjartanlega sammála þessu og við í Frjálslynda flokknum tökum heils hugar undir þetta. Það er enginn vafi að Ísland á mjög sterk menningarleg, tungumálaleg og söguleg tengsl við Norðurlöndin og okkur ber að efla samvinnu milli landanna á sem flestum sviðum. Þar held ég að Ísland hafi einmitt mikið að vinna.

Það er fest niður í stefnuskrá míns flokks, Frjálslynda flokksins, að flokkurinn er sérstaklega hlynntur aukinni samvinnu milli Noregs, Íslands, Færeyja og Grænlands, ekki síst varðandi sameiginlega nýtingu hafsins, ferðaþjónustu og markaðssetningu hennar, en að sjálfsögðu erum við líka mjög hlynnt því að við höldum uppi öflugu samstarfi við öll Norðurlöndin, virðulegi forseti.

Því miður er það svo, og ég verð að lýsa yfir harmi mínum með það, að Frjálslyndi flokkurinn á ekki neina aðild að starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Mér þykir það mjög leitt af því að ég er sjálfur mikill áhugamaður um norrænt samstarf og hefði gjarnan viljað að minn flokkur ætti aðild að þessu starfi. Við eigum hins vegar aðild að Vestnorrænu þingmannanefndinni eða Vestnorræna ráðinu sem kallað er, en að sjálfsögðu hefði ég viljað að Frjálslyndi flokkurinn ætti líka aðild að Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Mér finnst það í raun mjög slæmt að þingflokkar á hinu háa Alþingi fái ekki að taka þátt í þessu samstarfi smæðar sinnar vegna. Ég tel að það væri hið besta mál ef liðkað yrði fyrir því að allir flokkar sem á annað borð væru með þingmenn á Alþingi gætu fengið að koma að þessu samstarfi okkar Íslendinga, sem mér finnst vera veigamikill hluti af samstarfi okkar við þjóðir á erlendum vettvangi, mikilvægur hluti af utanríkismálum okkar, utanríkisstefnu og utanríkispólitík.

Oft hefur það verið gagnrýnt að Norðurlandaráð og sú starfsemi sem þar fer fram sé óþörf eða jafnvel aflóga, úr sér gengin og gamaldags stefna. Þetta eigi ekki við lengur í dag, þrjú Norðurlandanna séu komin inn í Evrópusambandið, hagsmunirnir séu ólíkir, áherslurnar séu ólíkar og annað þar fram eftir götunum og þetta sé því bæði eyðsla á peningum og tíma fólks. Ég er alls ekki sammála því. Vissulega má kannski taka undir það að starfsemi Norðurlandaráðs hefði á margan hátt mátt vera markvissari og ákveðnari. Ég held að þjóðirnar sjálfar eigi að hluta til einhverja sök á því, að þjóðirnar sjálfar hafi ekki verið nógu vakandi, ríkisstjórnir þessara fimm þjóða á hverjum tíma hafi kannski ekki verið nægilega vakandi fyrir þeim möguleikum sem geta falist í norrænu samstarfi. Við höfum kannski ekki, Norðurlandaþjóðirnar, verið nógu dugleg að notfæra okkur möguleikana til að efla hag okkar allra með því að reyna að ganga í takt eða leggjast saman á árarnar, eða að standa saman þegar bjátar á.

Nefna má gott dæmi um það þar sem mér þótti samstaða Norðurlandaþjóðanna nánast bregðast. Ég nefni nýlegt dæmi, dæmi sem í raun og veru stendur enn þá yfir. Það var þegar teikningarnar birtust í Jótlandspóstinum og allt fárið sem varð vegna þeirra. Þá urðu Danir illa úti og áttu mjög undir högg að sækja, bara fyrir örfáum dögum síðan. Norðmenn líka þar sem þeim var að hluta til ruglað saman við Dani. Danir lentu í mjög miklum vandræðum. Þá varð ég ekki var við að önnur Norðurlönd styddu þá. Það var eins og hin Norðurlöndin reyndu frekar að láta lítið á sér bera, láta lítið fyrir sér fara, og reyndu ekki á neinn hátt, a.m.k. að því er séð varð opinberlega, í fjölmiðlum eða annars staðar, að koma Dönum til hjálpar í þessari erfiðu stöðu.

Nú er ég alls ekki að reyna að réttlæta birtingu þessara mynda á neinn hátt. Ég tel að þetta hafi verið ákaflega heimskulegt af þessu tiltekna dagblaði. Þó að blaðið hafi að sjálfsögðu haft fullan rétt á að gera þetta í nafni tjáningarfrelsis þá var þetta óþarfi og í raun og veru afskaplega heimskulegt. En þar fyrir utan held ég að hinar Norðurlandaþjóðirnar hefðu átt að reyna að sýna svolítið meiri lit, og þar á meðal ríkisstjórn Íslands, í því að sýna Dönum einhvern stuðning í þessu máli, t.d. í því að halda fram þessu sjónarmiði. Að minnsta kosti hefði ég gert það. Ef ég hefði verið í þeirri aðstöðu að rétta Dönum hjálparhönd á einhvern hátt hefði ég reynt að halda því fram að Danir hefðu þrátt fyrir allt mátt gera þetta í nafni tjáningarfrelsis þó að þetta hefði vissulega verið heimskuleg aðgerð af hálfu þessa tiltekna dagblaðs.

Þetta varð náttúrlega mikið írafár á margan hátt og fáránleg staða sem upp kom og spurning hvort þetta hafi ekki að hluta til verið magnað upp af stjórnvöldum í löndum múslima. Að sjálfsögðu var þetta líka undirliggjandi spenna, viðvarandi spenna milli kristinna manna og múslima eða Vesturlanda og landanna í Austurlöndum nær, sem þarna kom upp á yfirborðið með þessum hætti. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ekki þarf nema lítinn neista til að kveikja mikið bál. Þetta er að sjálfsögðu hluti af skýringunni á því hvernig þetta mál fór allt fór út böndunum. En nóg um það, virðulegi forseti.

Ég hef lesið þá skýrslu sem hér liggur frammi. Hún er í sjálfu sér ágæt og svo sem ekki mikið um hana að segja efnislega. Þetta er upptalning á því sem gert hefur verið og allt er með hefðbundnum hætti. En eins og alltaf þegar maður les slíkar skýrslur er ýmislegt sem fær mann til að hugsa um ýmsa þætti sem varða þetta samstarf. Eins og kannski kom fram í báðum ræðum mínum áðan er ég mikill áhugamaður um pólitík á norðursvæðunum, á heimskautasvæðunum í norðurhöfum, um auðlindastefnu og auðlindanýtingu á þessum svæðum. Ég sé hér að haldin hefur verið sérstök Barentsráðstefna þingmanna í júní í fyrra, í Bodø í Norður-Noregi, skipulögð í samstarfi norska Stórþingsins og Norðurlandaráðs. Því miður gátum við í þingflokki Frjálslynda flokksins ekki tekið þátt í þessari ráðstefnu, ekki nema með því að greiða fyrir það sjálfir úr eigin vasa. Við tókum ekki þátt í henni af því við erum ekki aðilar að Norðurlandasamstarfinu, eins og ég nefndi áðan. Þarna voru yfir 300 þátttakendur, þingmenn frá Norðurlöndunum og Rússlandi, sveitarstjórnarmenn og fylkisþingmenn frá nyrstu héruðum, fulltrúar samtaka frumbyggja og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta í þessu.

Virðulegi forseti. Mér hefur oft fundist að okkur Íslendinga, íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnina, skorti heildstæða stefnu í því hvernig við ætlum að halda á spilunum þegar um er að ræða baráttu fyrir rétti okkar á hafsvæðunum norðaustur af Íslandi. Þá er ég ekki bara að tala um Íshafið beint norður af okkur, heldur hafsvæðið umhverfis Svalbarða og jafnvel norður í Barentshafi. Hvernig ætlum við, eyja í miðju Atlantshafi, að halda stöðu okkar í þeim efnum, halda utan um hagsmuni okkar, utan um tengsl okkar ekki bara við Noreg, norðurhluta Svíþjóðar, Norður-Finnland, heldur líka Norðvestur-Rússland? Hvað með Grænland og jafnvel Kanada? Mér finnst skorta algerlega heildstæða stefnu í þessum málum.

Ég hef oft verið að velta því fyrir mér og sérstaklega nú í vetur hvort ekki væri rétt að íslenska ríkisstjórnin, hver sem hún verður eftir næstu kosningar, ýtti úr vör einhverri vinnu til að svo mætti verða. Ég tel að það sé borin von að sú ríkisstjórn sem nú er muni gera nokkuð í þessum málum, ég tel að hún hafi ekki sýnt þeim mikinn áhuga þótt hér sé um að ræða gríðarleg hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga til framtíðar. En kannski gæti næsta ríkisstjórn sett slíka vinnu í gang.

Ég hef m.a. verið að skoða það sem ríkisstjórn Norðmanna hefur verið að gera í þessum efnum og mér finnst það mjög lofsvert. Þar hafa á undanförnum árum komið út tvær viðamiklar skýrslur sem hafa verið teknar saman af færustu sérfræðingum þeirra á sviði auðlindanýtingar, milliríkjastjórnmála, stjórnmála heimskautasvæðanna og norðurhéraðanna, sérfræðinga á ýmsum sviðum, landfræðinga, jarðfræðinga, sérfræðinga í olíuvinnslu, gasvinnslu og í sjávarútvegi. Allir þessir aðilar hafa komið saman og skilað mjög góðu verki. Afskaplega góðum og vel unnum skýrslum þar sem farið er yfir þessi mál. Þar er lagt fram hvaða möguleika Norðmenn hafa í þessum efnum.

Þarna er allt dregið inn, virðulegi forseti. Mér finnst slík vinnubrögð vera til fyrirmyndar og ég sakna þess að hafa ekki séð svona vinnubrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda, því þarna tel ég að mjög mikið sé í húfi. Núna eru t.d. að verða ákveðnar breytingar í umhverfi, við erum að fara inn í hlýskeið. Það má deila um hvers vegna það gerist, hvað sé hér á ferðinni, hvort þetta sé af mannavöldum eða hvort einungis sé um náttúrulegar eðlilegar sveiflur að ræða. En um það verður ekki deilt að við erum að fara inn í hlýskeið. Þetta mun leiða til þess að mörg ný tækifæri munu opnast, t.d. á sviði samgangna. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um skipaumferð. Það munu líka opnast ný tækifæri með tilliti til olíuvinnslu og gasvinnslu á Svalbarða, það er ekki nokkur vafi á því að þar eru olíulindir, gaslindir. Við vitum að þar er mikið af kolum. Þetta er ævafornt landsvæði, þarna var einu sinni frumskógur og hafa meira að segja fundist spor eftir risaeðlur. Þarna eru mikil auðæfi fólgin í jörðu en við getum líka talað um hinar lifandi auðlindir, t.d. fiskstofnana. Þarna eru mörg tækifæri og við Íslendingar verðum hreinlega að halda vöku okkar í þessum efnum.

Ég tel að samstarfið innan Norðurlandanna geti hjálpað okkur á margan hátt. Þótt minn flokkur sé ekki aðili að Norðurlandasamstarfinu þá höfum við eftir fremsta megni reynt að hoppa á vagninn þegar tækifæri hefur gefist. Ég sat til að mynda þing Norðurlandaráðs síðastliðið haust, gerðist boðflenna þar. Það var mjög gagnlegt, bara til að hitta fólk frá Norðurlöndunum, kynnast kollegum og skiptast á skoðunum, rabba við þá og heyra sjónarmið þeirra. Mynda þessi félagslegu tengsl, þessi mannlegu tengsl sem verða ekki til öðruvísi en þegar maður hittir mann, þau eru afskaplega mikilvæg og þetta er kannski sá þáttur Norðurlandasamstarfs, þ.e. mannleg tengsl sem myndast milli stjórnmálamanna og embættismanna, sem er mest vanmetinn í öllu þessu starfi og sá þáttur sem alls ekki kemur fram í skýrslu eins og þessari. En þau skyldi alls ekki vanmeta, virðulegi forseti.

Að lokum vil ég svo segja, virðulegi forseti, ég sé að nú blikkar á mig klukkan, að ég tel að við Íslendingar ættum að sýna frumkvæði í að berjast fyrir því að vinir okkar og frændur í Færeyjum fái fulla aðild að Norðurlandaráði. Það er sjálfsögð og réttmæt krafa sem við ættum að beita okkur fyrir.