132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

Vestnorræna ráðið 2005.

577. mál
[16:33]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson orðaði það sem svo hér áðan að það mætti líta á Ísland sem stóra bróður í samstarfi Vestnorrænu ríkjanna. Það má vissulega segja það en kannski mætti enn frekar segja að Ísland væri stóra systirin í þessu sambandi. Það var hlutverk eldri systra í systkinahóp hér á árum áður að passa litlu systkini sín og miðla af reynslu sinni og umhyggju og það er einmitt þannig sem við Íslendingar getum oft beitt okkur í samstarfi við vestnorrænu þjóðirnar, Grænland og Færeyjar.

Þegar maður fer að kynnast aðstæðum í þessum löndum, og þó einkum og sér í lagi á Grænlandi, verður allur vandi sem við hér á Íslandi þekkjum agnarsmár. Manni verður stundum á að spyrja sig: Hvernig er þetta eiginlega hægt eða hvað er hægt að gera? Það er sama hvort litið er á stærð landsins, strjálbýlið sem þar er, ógnardýrar samgöngur, litlar orkulindir, mjög alvarlegan heilsufarsvanda, fábreytt atvinnulíf og mikinn vanda og óhamingju á stórum svæðum landsins sem má beinlínis rekja til þess. Ég gæti örugglega talið margt fleira upp. Öll vandamál á Íslandi verða lítil í þessum samanburði.

Það er ákaflega gaman að kynnast þessum löndum, kynnast því hvað þau eru að sumu leyti lík en að öðru leyti gjörólík. Færeyingar, sem búa svona nálægt okkur, eru að mörgu leyti býsna líkir okkur Íslendingum. Það er líka gaman að verða vitni að því hversu sterk tengsl eru í rauninni á milli Dana, Grænlendinga og Íslendinga sem má rekja til fiskveiðisögunnar í gegnum áratugi ef ekki lengur. Svo eru íbúar þessara landa líka gjörólíkir okkur. Ég hugsa t.d. að við mundum seint upplifa það á Íslandi að opinberar veislur hæfust með borðbænum en þannig er það gjarnan í Færeyjum. Þeir eru mjög trúaðir og mér fannst skemmtilegt að fá að kynnast því hvernig þeir halda í sína siði.

Þó að vandamálin séu stór í þessum löndum er þó ýmislegt sem vel er hægt að taka höndum saman um og þarf ekki allt að vera stórt. Fiskveiðistjórnarkerfið og samstarfið um fiskveiðimál er ákaflega stórt og ekki einfalt að taka utan um þau mál enda skildist mér nú á þemaráðstefnunni í Færeyjum síðast að það málefni væri búið að ræða árum saman án þess að nokkur niðurstaða væri í það komin eða nokkuð sýnt um að árangur næðist í þeim efnum. Þetta kann að vera óþarfa svartsýni og tíminn mun leiða í ljós hvort við getum tekið höndum saman í þessu máli svo að einhverju gagni skili okkur.

Málaflokkar sem við getum mjög vel starfað saman að eru t.d. heilbrigðismál og ferðamál. Fyrir tveimur árum var haldin þemaráðstefna í Ilulissat um heilbrigðismál og þar kom fram að 80% Grænlendinga, 14 ára og eldri, reykja. Reykingar eru taldar meginorsök heilbrigðisvanda á Grænlandi og skal engan undra. Þarna tel ég t.d. að við Íslendingar gætum mjög vel miðlað Grænlendingum því að við höfum náð árangri í reykingavörnum.

Ég tel líka að við ættum að beina kröftum okkar að því að efla forvarnir og starf með ungu fólki. Við höfum reyndar séð mjög gott dæmi um jákvætt starf í því efni þar sem Skákfélagið Hrókurinn er. Þar er nú bara einkaframtak að starfi þannig að íslenska og færeyska ríkinu ætti ekki að verða skotaskuld úr því að koma til aðstoðar.

Ég talaði um það áðan að á vissum svæðum landsins væri við mikinn vanda og óhamingju að ræða, m.a. vegna þess hve lítil uppbygging er og lítil framtíðarsýn er fyrir fólk á þessum svæðum varðandi atvinnulíf. Sjálfsmorðstíðni ungmenna er t.d. mjög há í Grænlandi þannig að manni hnykkir við þegar maður sér tölurnar. En þá fyrst bregður manni í brún þegar maður sér tölurnar frá austurströnd Grænlands. Ef við gætum á einhvern hátt komið til aðstoðar þannig að lífið yrði fólkinu bærilegra tel ég að það væri vel þess virði að reyna.

Við höfum reyndar reynslu af að takast á við nákvæmlega þess konar vandamál sem ég var hér að lýsa, því að meðan sem allra mest svartnætti var í atvinnumálum Austfirðinga glímdu þeir við svipað vandamál þó að í mun minna mæli væri, sem betur fer. Þar var sett af stað forvarnastarf og það forvarnastarf skilaði árangri þannig að við höfum kunnáttu í því efni líka.

Það er augljóst að við Íslendingar getum átt gott samstarf við Færeyinga í ferðamálum og við ættum líka að geta átt samstarf við þá í viðskiptum. En allir þeir þættir, sem ég taldi upp hér áðan, og öll samskipti kristallast í betri samgöngum. Samgöngur eru ekki nógu góðar á milli þessara landa.

Hv. þm. Halldór Blöndal, formaður Vestnorræna ráðsins, tiltók hér áðan að það væri búið að ganga frá flugsamgöngum á milli Íslands og Grænlands fyrir næsta sumar. En þar er aðeins verið að tala um samgöngur að sumarlagi og einungis samgöngur við austurströnd Grænlands. (HBl: Suðurströnd Grænlands.) Já, suður- og suðausturströndina. Það vantar alveg samgöngur á vesturströndina og t.d. eru engar samgöngur við Nuuk nema í gegnum Kaupmannahöfn. Ef við eigum að geta komið á einhverjum almennilegum samskiptum og samstarfi á milli þessara landa þurfa samgöngur að vera greiðari en nú er og þær þurfa líka að vera ódýrari. Það kostar svo mikið að fara þarna á milli að það er ekki nema einstaka manni fært.

Á milli ungs fólks hefur líka verið samstarf á menningarsviðinu, t.d. var haldið námskeið í kvikmyndagerð hér á Íslandi. Ég hef séð afraksturinn af þeirri vinnu. Á aðalfundi ráðsins á Ísafirði síðasta haust var sýnd kvikmynd og það var ákaflega skemmtilegt. Ég held að slíkt samstarf hafi mikla þýðingu í því að skapa skilning á milli þessara þjóða.

Vestnorrænu barnabókaverðlaunin eiga sér orðið nokkra sögu og eru ákaflega gott framtak að mínum dómi. Hins vegar þarf að gæta þess að reyna að markaðssetja verðlaunabækurnar í öllum löndunum og það væri ákaflega ánægjulegt ef hægt væri að gefa líka út þær bækur sem tilnefndar eru frá hinum vestnorrænu ríkjunum, þ.e. frá Færeyjum og Grænlandi.

Mér hefur orðið tíðrætt, frú forseti, um Grænland í þessu efni. Það er kannski vegna þess að mér finnst vandamálin og verkefnin í Færeyjum og á Íslandi smá miðað við það sem fyrir hendi er á Grænlandi. En kynning og samstarf þessara landa er dýrmætt, þessar þjóðir hafa þekkst mjög lengi, sérstaklega fyrir tilverknað fiskimiðanna í kringum löndum. Íbúar þessara þriggja landa hafa sótt þau mið og þá kynnst íbúum þeirra landa sem þeir hafa verið að fiska við hverju sinni. En þetta starf er ákaflega skemmtilegt, fróðlegt og gefandi og ég hlakka til að taka þátt í því áfram.