132. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2006.

Framhald umræðu um frumvarp til vatnalaga.

[11:58]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því áðan að í ræðu formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, lagði hún mikið upp úr því að við mundum virða tjáningarfrelsið og að við gætum komið okkar sjónarmiðum á framfæri á fundum Alþingis og tek ég alveg heils hugar undir það. Mér þykir hins vegar miður að það sé aðeins hægt að nota kvöld eða helgar í að koma þessum sjónarmiðum á framfæri, en að sjálfsögðu mun ég nýta mér þann kost.

Mér þykir einnig miður að hin nýja fjölskyldustefna hæstv. forseta þingsins skuli þá um leið ekki fá samræmst þeim vilja hv. þingmanns að tjáningarfrelsið fái notið sín. Er miður að þetta skuli ekki geta farið saman.

Ég fagna ummælum formanns iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, um mikilvægi þess að nefndin komi saman. Í þeim ummælum felst að sjálfsögðu það að fram hafa komið nýjar upplýsingar sem nauðsynlegt er að ræða. Annars þyrfti ekki að kalla nefndina sérstaklega saman. Það felst í þessum orðum.

Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hvort hún telji ekki eðlilegt, þar sem fyrir liggur að nýjar upplýsingar hafa komið fram og að fyrir liggur vilji hv. formanns iðnaðarnefndar um að kalla nefndina saman, að rétt sé að þessar upplýsingar liggi fyrir á meðan 2. umr. fer fram. Það er mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir svo umræðan fari fram á réttum forsendum.

Ég held að þetta sé eðlileg krafa og því er afar eðlilegt að við gerum hlé á þessari umræðu núna og að þessi fundur í iðnaðarnefnd verði haldinn, menn fari þar yfir þau álitaefni, sjónarmið og upplýsingar sem fram hafa komið til að umræðan geti farið fram á réttum forsendum. Annars þjónar hún ekki þeim tilgangi að hún fari fram og þá kannski fær tjáningarfrelsið ekki notið sín eins og það ella mundi gera ef umræðan færi fram á réttum (Gripið fram í: Mun betur.) forsendum. Ég heyri að hv. þingmaður kallar fram í „mun betur“ og ég tek undir það. Auðvitað væri umræðan mun betri ef allar upplýsingar lægju fyrir þegar hún fer fram. (Gripið fram í: Milli 2. og 3. umr.)

Rétt að lokum, vegna þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal hóf nú þessa umræðu um störf þingsins, þá held ég að rétt sé að rifja það upp, af því að hv. þingmaður er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að hv. þingmaður leitar ætíð til viðkomandi fagráðherra ef einhverjar breytingar þarf að gera eða tillögur um einhverjar breytingar á frumvörpum sem eru í nefnd. Þess vegna held ég að hv. þingmaður — því miður ... jú, hv. þingmaður er kominn í salinn — þá ætti hv. þingmaður að skilja það mjög vel að það sé eðlilegt að stjórnarandstaðan geri kröfu til þess að viðkomandi fagráðherra sitji undir þeirri umræðu sem (Forseti hringir.) fram fer þegar verið er að ræða þeirra mál.