132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Fyrir stuttu var fyrirspurn sama efnis svarað á Alþingi, það eru u.þ.b. sex vikur síðan, og það svar sem þá var gefið er á mjög svipuðum nótum og ég hef að segja hér í dag. Heilbrigðisþjónusta okkar er framúrskarandi og hv. þingmaður nefndi það einmitt áðan. Við erum með lægsta ungbarnadauða á Íslandi miðað við önnur ríki. Næsta ríki sem kemur á eftir okkur er Svíþjóð. Þetta er sá mælikvarði sem menn hafa helst miðað við þegar verið er að skoða hvort heilbrigðisþjónustan er góð eða ekki milli landa.

Það er alveg ljóst að hér er þjónustan framúrskarandi góð og það er m.a. að þakka því hæfa starfsfólki sem vinnur á barnaspítalanum en auðvitað líka miklu fleiri þáttum, svo sem ungbarnavernd, við fylgjumst með mæðrum á meðgöngu o.s.frv. Staðan er því afskaplega góð. Að sjálfsögðu lýkur aldrei uppbyggingu innan heilbrigðisþjónustunnar og þó að staðan sé góð eru mörg verkefni fram undan. Það verkefni sem hér er til umræðu er gjörgæsla eða það sem kallast hágæsla á barnaspítalanum. Nú þegar er fyrir gjörgæsla á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, mjög öflug gjörgæsla, en hún er ekki í sama húsi og barnaspítalinn, fara þarf um nokkurn veg eins og sýnt var fram á í þætti í gær og hefur verið til umræðu um nokkurt skeið.

Landspítalinn þarf auðvitað að forgangsraða sínum beiðnum. Ég vil nefna að hágæsla var ekki í forgangi í beiðnum á síðasta ári en við munum að sjálfsgöðu skoða þetta mál eins og önnur mál sem (Forseti hringir.) brýnt er að skoða innan heilbrigðisþjónustunnar.