132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Skortur á hágæsluþjónustu á barnaspítalanum.

[15:19]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ástu Möller sem nefndi það réttilega að þetta er erfitt mál og ekki auðvelt að taka þátt í þeirri umræðu í ljósi þeirra atburða sem urðu kannski tilefni þess sjónvarpsþáttar sem vitnað hefur verið til í umræðunni í dag. Eins og komið hefur fram vakti hv. þm. Gunnar Örlygsson athygli á þessu máli fyrir löngu síðan og hefur fylgt því eftir. Ég vil, með leyfi forseta, lesa úr svari hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hans sem var fyrir nokkru, en þar segir í niðurlagi, virðulegi forseti:

„Stjórnendur Landspítalans hafa nú til skoðunar með hvaða hætti mætti þróa og koma fyrir hágæsluaðstöðu á Barnaspítala Hringsins og reka hana með sem hagkvæmustum hætti. Er gert ráð fyrir að tillögur stjórnenda komi til skoðunar ráðherra áður en langt um líður. Að fengnum tillögum stjórnenda Landspítala – háskólasjúkrahúss um fyrirkomulag hágæslueiningar mun ráðherra taka ákvörðun um næstu skref í samráði við stjórnendur LSH.“

Virðulegi forseti. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þetta mál. Ég held að það sé vilji okkar sem hér erum inni sem og allra annarra sem hér búa að hafa sem allra besta þjónustu og þá kannski sérstaklega fyrir ung börn og öryggið sé þar í fyrirrúmi.

Virðulegi forseti. Ég treysti hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, fullkomlega til að hafa forustu um þetta mál og finna því góðan farveg því ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þess að sjá til að bæta þjónustuna á þessu sviði og auka öryggi ungra barna.