132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[15:45]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það var einlægur vilji formanns iðnaðarnefndar þegar ákveðið var að taka þetta mál fyrir á aukafundi í dag að reyna að stuðla að einhvers konar sáttum. Það var farið yfir þetta alveg eins og beðið var um, mjög gaumgæfilega. Ég gat ekki ætlað annað en að allir fengju þau svör sem þeir vildu. En það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að þetta mál er á góðri leið með að verða okkur öllum til töluverðra vandræða.

Þetta byrjaði ekki vel og við höfum ekki tekið þetta út með neinu offorsi. Þetta byrjaði í fyrra. Þá áttum við mikla fundi og langa. Þá lentum við í því að upp kom heilmikil valdastreita í stjórnkerfinu sem olli okkur vandræðum. Hún var um það hverjir ættu að ráða, hver væri hver, hvar hvers ráðuneyti væri o.s.frv. Það fór langur tími í að leiðrétta þetta, langur tími og mikil fyrirhöfn hjá iðnaðarnefndinni. Núna hafa menn miklar áhyggjur af því hvort við séum að herða eignarréttarákvæðið, hvort neikvæður eignarréttur sé öðruvísi skilgreindur eða skýrari en jákvæður o.s.frv. Mér sýnist, virðulegi forseti, að menn séu komnir allir dálítið of langt. Það kemst enginn til baka. Stjórnarliðarnir geta ekki bakkað, geta ekki látið stjórnarandstöðuna stjórna sér. Stjórnarandstaðan er búin að segja svo mikið að hún getur ekki bakkað heldur.

Niðurstaðan af efnislegri umfjöllun í nefndinni, að mínum dómi, virðulegi forseti, var sú að ágreiningurinn er nú mun minni en menn vilja vera láta. Það mætti jafnvel halda að yrði þetta frumvarp samþykkt og að lögum mundi fátt breytast. Einnig hitt að verði það ekki að lögum muni ekkert breytast heldur.

Hér er þingið komið í töluverðan vanda. (Gripið fram í.) Ég verð þá að segja, virðulegi forseti, að ég held að það væri mjög gott ef forustumenn þeirra stjórnmálaflokka sem sitja hérna hugleiddu þetta og reyndu að átta sig á því hvort nokkur möguleiki væri, þingsins vegna, að koma okkur út úr þessum vandræðum án þess að menn teldu sig bera af því stóran skaða. Það er mjög óheppilegt þegar menn festast í deilum um nánast ekki neitt, eins og hér standa málin. Það er mjög óheppilegt fyrir alla, ekkert síður okkur stjórnarliðana en stjórnarandstöðuna.

Þess vegna bið ég, virðulegi forseti, menn að hugleiða þetta bara í rólegheitum og vera afslappaðir. Er ekki einhver leið út úr þessu? Að vísu er ég búinn að segja að menn geti snuddað hérna fram að páskum. Ég sagði það fyrir helgina. Kannski var það rétt hjá mér en ég hef samt dálitlar áhyggjur af því að menn verði orðnir leiðir þegar kemur fram á pálmasunnudag.

Ég bið menn að hugleiða þetta í rólegheitunum. Deilurnar eru minni en menn vilja vera láta.