132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort virðulegur hæstv. forseti fylgist ekki með því sem sagt er hér varðandi meðferð málsins í þinginu. Það hefur komið fram að það er mikill ágreiningur um málsmeðferðina, það er líka ágreiningur um efnisinnihaldið. Fulltrúar meiri hlutans fullyrða að þetta frumvarp feli ekki í sér neina breytingu frá gildandi lögum og m.a.s. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem á að ég held líka sæti í iðnaðarnefnd, sagði að það skipti engu máli hvort það yrði samþykkt eða tekið burt. Mér finnst þetta mjög athyglisverð ummæli, frú forseti.

Ég vil svo benda á að hér er tekist á um grundvallaratriði, þ.e. um stöðu vatns, hvort það eigi að einkavæða vatn, það verði háð einkaréttindum, eða hvort vatnið sé í grunninn í eigu allra, í eigu almennings, í eigu þjóðarinnar, í eigu framtíðarinnar, tekist er á um það.

Þetta var líka deiluefni á árunum 1921–1924 og þá bar þingið gæfu til þess að skipa þingnefnd, nefnd þingmanna, um málið. Sú nefnd kom fram með tillögur sem voru samþykktar af þinginu. Nú búum við við það að hér er verktaki sem vinnur frumvarp til laga og síðan er það keyrt inn í þingið og þar hótar bara meiri hlutinn: Ja, við erum með meiri hluta og við skulum sjá til þess að það verði samþykkt. Þetta eru allt önnur vinnubrögð en þá voru viðhöfð. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom inn á það hér áðan hvort það væri ekki hægt að taka upp einhver skynsamlegri vinnubrögð varðandi þetta mál. Þá bar þingið, undir stjórn vafalaust góðs forseta, gæfu til þess að leggja það til að þingið sjálft skipaði nefnd til að fjalla um þessi grundvallaratriði.

Ég vil hér, frú forseti, beina því til hæstv. forseta að taka sér þáverandi forseta, á árunum 1921–1923, til fyrirmyndar og að hér verði skipuð þingnefnd, nefnd þingmanna, til að vinna frumvarp um þetta grundvallarmál um stöðu vatnsins. Það væru hin réttu og eðlilegu vinnubrögð í því lýðræðislega samfélagi sem við viljum hafa.