132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mér fannst á tímabili í þessari umræðu aðeins meiri (Gripið fram í.) sáttatónn um að koma málinu áfram þannig að hugsanlega mundi hilla undir það í þessari viku að málið kæmist í einhvern farveg. Ég tel ástæðu til að hafa orð á því að ég tel að það hafi verið vel til fundið hjá hv. formanni iðnaðarnefndar að halda fund í nefndinni og fara yfir málið og mér heyrist á mönnum að enda þótt þeir séu ekki alveg sammála um það sem þar fór fram hafi þetta þó orðið til þess að aðeins hafi þokast saman með fólki.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um að reynt verði að leita leiða til að finna farveg fyrir þetta mál. Ég held að það sé ekkert sérstaklega gæfulegt að við ræðum það hér út alla þessa viku sem stefnir í eins og málið liggur fyrir, og held að það væri kannski málinu til framdráttar að við reyndum að finna á því flöt ef hægt er. Þetta er skrýtið mál, stjórnarliðar segja að þetta sé ekki nein breyting og síðan kemur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og segir að það skipti engu máli hvort frumvarpið fari í gegn eða ekki, ástandið sé það sama, og loks koma sérfræðingar fyrir iðnaðarnefnd og lýsa því yfir að engin efnisbreyting verði á lögunum eftir því sem mér heyrðist á formanni iðnaðarnefndar en aðrir nefndarmenn hafa skilið þetta öðruvísi.

Hæstv. forseti. Ég held að rétt væri að staldra við og kanna hvort hægt sé að finna einhvern flöt á málinu og ég hygg að það yrði málinu til framdráttar. Í öllum erfiðum málum er til einn flötur og hér er hann er einfaldlega sá að ef það er eindreginn vilji ríkisstjórnarinnar að fara með þetta mál í gegn þá gætu menn gert það en látið gildistökuákvæðin koma til framkvæmda á árinu 2007. Þá reynir á það hvort málið hefur einhvern framgang eða hvort þetta er bara deila um keisarans skegg.