132. löggjafarþing — 84. fundur,  13. mars 2006.

Fundur iðnaðarnefndar um vatnalögin.

[16:36]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér fer fram mikil umræða um fundarstjórn forseta varðandi það mál sem hér er á dagskrá í dag og kannski ekki undarlegt að menn velti fyrir sér hver staðan sé í málinu því að margir vilja taka þátt í efnislegri umræðu um það. Eins og allir vita hefur umræðan um þetta mál tekið langan tíma og þrátt fyrir að menn hafi verið lengi á mælendaskrá hafa þeir ekki komist að í efnislega umræðu vegna þess hve ítarlega menn hafa þurft að fara yfir málið í ræðum sínum.

Það er svolítið erfitt að átta sig á stöðunni sem uppi er þegar maður hlustar á hv. stjórnarliða koma hér í ræðustólinn og lýsa því yfir að í raun sé nánast engin breyting í frumvarpinu frá gildandi lögum, þetta sé í raun og veru eingöngu formbreyting og þar af leiðandi skipti það engu hvort þetta sé samþykkt eða ekki. Þegar maður hlustar á þann málflutning þá veltir maður fyrir sér hver vegna verið sé að keyra þetta með þeirri hörku og þvergirðingshætti sem hér er verið að gera. Getur verið að það sé eingöngu vegna vana, að það sé eingöngu vegna þess að þannig hefur og vill stjórnarmeirihlutinn keyra sín mál áfram eða liggur eitthvað annað þar á bak við?

Það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvað hæstv. iðnaðarráðherra er að meina þegar ráðherrann tjáir sig um hin ýmsu mál. Ég held að hin góða greinargerð sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lagði hér fram fyrr í dag sýni okkur það að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á hvort hæstv. ráðherra er að segja já eða segja nei þegar verið er að ræða ákveðin mál og erfitt að komast að skoðun hæstv. ráðherra.

Frú forseti. Niðurstöðu hljótum við að þurfa að ná, við þurfum að halda þingstörfum áfram og koma málum þingsins áfram. En maður hlýtur að velta því fyrir sér, eftir að hv. varaformaður iðnaðarnefndar, Einar Oddur Kristjánsson, kom hér upp og síðan hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, og lýsa í raun, að mér finnst, breyttri stöðu í afstöðu sinni til málsins, að það sé kannski ekki eins brýnt af hálfu stjórnarliðsins að klára málið og áður virtist vera og láta það trufla þingstörfin með þeim hætti sem það gerir. Því hlýtur maður að velta fyrir sér hvort hæstv. forseti ætti ekki að kanna hvernig málið stendur í þingsalnum, hver sé vilji meiri hluta þingmanna varðandi málið. Á að halda áfram á þann hátt sem nú er gert, á halda áfram að láta þetta mál trufla þingstörfin eins og það er búið að gera eða ætla menn að skoða hvort ekki væri rétt að virða meirihlutavilja þingmanna, sem kallað er eftir, því að mér heyrist meiri hluti þingmanna vilja að málið verði (Forseti hringir.) kæft eða lagt í salt.