132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[20:28]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að vona að þessar löngu umræður hefðu kannski orðið til að upplýsa einhverja liðsmenn stjórnarflokkanna um hve vont þetta frumvarp er. Ég þurfti að fara í gegnum það á löngum fundum í iðnaðarnefnd og ég hef trú á að margir liðsmenn Sjálfstæðisflokksins sem sitja í iðnaðarnefnd og hafa þurft að fara í gegnum þetta frumvarp séu efins um það.

Við verðum að gæta að því að orkunýtingarþátturinn er í forgrunni og ég vil lesa niðurlag að 20. gr. frumvarpsins sem hv. þm. Jónína Bjartmarz vill leiða í lög.

„Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð og getur ráðherra þá heimilað eignarnám til afnota af landi hans til að framkvæma verkið og nota vatnið. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati.“

Þarna er iðnaðarráðherra settur í þá stöðu að taka land af einhverjum sem vill ekki fara í virkjun. Þetta má lesa í gegnum frumvarpið, að orkunýtingin er í forgrunni.