132. löggjafarþing — 86. fundur,  15. mars 2006.

Vatnalög.

268. mál
[21:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu þurfa ákvæðin í stjórnarskránni að vera mjög skýr um þjóðareign á vatni, vatn fyrir alla og almannarétt á vatni og að ekki sé hægt að hafa vatnsauðlindina sem verslunarvöru. Að sjálfsögðu. Enda eru margar þær þjóðir sem hafa lent í þeirri ógæfu að selja frá sér vatnsauðlindina að reyna að ná henni til sín aftur. Ég vona að okkur Íslendinga hendi ekki sú ógæfa að frumvarpið verði að lögum og hleypi þeirri ógn af stað gagnvart íslenskri þjóð. Því að við viljum ekki að vatn sé einkavætt og vatnsauðlindin verði markaðsvara.

Varðandi stöðu bænda og landeigenda kem ég betur að því í ræðu minni á morgun. En staðreyndin er sú að þetta lagafrumvarp þrengir vatnsréttindi bænda frá þeim sem nú eru í gildandi lögum. Vegna þess að í gildandi lögum er ekki kveðið á um að þetta sé eignarréttur, heldur er þetta nýtingarréttur og vatnsréttur til fjölþættra bústarfa og til landbúnaðarnota sem eru tilgreind. Í frumvarpinu er þessi nýtingarréttur og almannaréttur bænda og landeigenda til landbúnaðar skertur því hann nær einungis til kvikfjárræktar eins og sagt er, ekki til akuryrkju eða garðræktar o.s.frv. Í þessu lagafrumvarpi er nýtingarréttur bænda skertur, enda hafa þeir bent á það í umsögnum sínum. En ég fer nánar ofan í það í ræðu minni við 3. umr. á morgun, frú forseti.

Ég legg áherslu á að vatn eru mannréttindi en (Forseti hringir.) ekki séreign og markaðsvara á þeim grunni.