132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[16:28]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 79 24. maí 2005, um uppboðsmarkaði sjávarafla. Hér er verið er að leggja til breytingu á a-lið 3. gr. laganna en þar er kveðið á um hverjir hafi rétt og leyfi til að reka uppboðsmarkaði sjávarafla. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að það sé einungis heimilt íslenskum ríkisborgurum sem eiga lögheimili hér á landi og að erlendir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hér á landi og hafa átt það samfellt í eitt ár geti jafnframt með undanþágum fengið leyfi til að reka uppboðsmarkaði.

Það er alveg ljóst að í gildandi lögum er gengið of langt í því að setja reglur um búsetu og ríkisfang þeirra sem starfrækja fiskmarkaði. Það er ekki í samræmi við tilskipanir og reglur Evrópska efnahagssvæðisins og þess vegna er það lagt til í frumvarpi þessu að því sé breytt á þann veg að leyfi til reksturs fiskmarkaðar skuli jafnframt ná til einstaklinga sem hafa ríkisfang og búsettir eru í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og jafnframt til Færeyinga.

Hér er ekki verið að gera mikla efnisbreytingu, fyrst og fremst er verið að opna skilyrðin varðandi rekstur fiskmarkaða. Fiskmarkaðir eru eins og allir vita starfsemi sem er í eðli sínu alþjóðleg eins og málum er háttað núna. Þetta eru markaðir sem í mjög mörgum tilvikum eru fjarskiptamarkaðir og út af fyrir sig er hægt að starfrækja þá frá starfsstöð sem ekki endilega er hér á landi og því er af þeim ástæðum óeðlilegt að setja þau skilyrði sem sett eru í gildandi lögum og hins vegar er hér ekki um að ræða hefðbundinn sjávarútveg en eins og allir vita gilda sérstakar reglur um takmarkanir á fjárfestingu útlendinga í sjávarútvegi. Það er þess vegna augljóst að ekki er verið að opna á neinar breytingar í þeim efnum heldur eingöngu að því sem snýr að þessum mörkuðum sérstaklega. Síðan er útskýrt nánar í athugasemdum við lagafrumvarpið hvernig þessu víkur við með hliðsjón af Evrópska efnahagssvæðinu og skyldum hlutum. Það er því ekki ástæða til að rekja þetta frekar efnislega.