132. löggjafarþing — 88. fundur,  16. mars 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[17:13]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kom upp áðan í umræðunni um þetta frumvarp frá því í fyrra, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppboðsmarkaði sjávarafla, til að furða mig á því að þessi lög sem eru frá 24. maí árið 2005 skyldu hafa farið í gegn án þess að menn hafi áttað sig á því að þau stönguðust með einhverjum hætti á við ákvæði EES-samningsins eða EFTA-samningsins.

Ég sit í sjávarútvegsnefnd og er ekki lögfræðimenntaður maður en ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á þessu. Ég vil jafnframt benda á að heill her af lögfræðingum vinnur í þessu blessaða sjávarútvegsráðuneyti og maður skyldi ætla að þetta fólk gæti unnið vinnuna sína og séð til þess að ekki komi þaðan lög sem eru svo augljóslega gloppótt hvað þetta varðar, að þegar verið er að búa til lög sé það einmitt skoðað hvort þau eða lagasamning eins og þessi stangist á við umrædda samninga því að þessir samningar eru hornsteinar í, hvað eigum við að segja, viðskiptalífi eða viðskiptum okkar Íslendinga. Mér finnst þetta mjög undarlegt og finnst undarlegt að einmitt þetta skuli ekki hafa verið athugað af því að þeir samningar eru búnir að vera í gildi í mörg ár.

Við sem sitjum í sjávarútvegsnefnd hljótum, virðulegi forseti, að skoða þetta mjög vandlega. Við hljótum líka að spyrja eðlilegra spurninga um hvort þetta sé allt í einu til komið núna vegna þess að einhverjir erlendir aðilar séu að sækjast eftir því að geta fengið að eiga eða fengið leyfi til rekstrar uppboðsmarkaðar hér á landi. Það er fyllilega eðlileg spurning að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort málum sé þannig háttað og ég get ekki séð að í því þurfi að felast neinar dylgjur. Þetta er fullkomlega eðlileg spurning hvort einhverjir hafi bent ráðuneytinu á að hér væri verið að standa í vegi fyrir því að útlendingar gætu fengið leyfi til að reka fiskmarkaði, uppboðsmarkaði á fiski á Íslandi. Þetta er fullkomlega eðlileg spurning. Og við sem sitjum í sjávarútvegsnefnd hljótum að kalla eftir svörum við þeirri spurningu.

Við hljótum líka að spyrja hvernig í ósköpunum á því stóð að embættismenn sjávarútvegsráðuneytisins, sem þekkja þessi lög og eiga að þekkja þessi lög út og inn, gátu ekki bent á þetta í fyrra?

Hér er líka talað um þennan fríverslunarsamning við Færeyinga, þennan svokallaða Hoyvík-samning sem var undirritaður 31. ágúst 2005. Mér finnst það mjög undarlegt, stórfurðulegt í raun og veru, að hér sé verið að bera inn, draga inn í þingið frumvarp til laga sem að hluta til er réttlætt með því að vísa í þennan fríverslunarsamning sem Alþingi hefur ekki fengið að sjá. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Ætlast menn virkilega til þess að við þingmenn, sem erum þó löggjafarvaldið í þessu landi, a.m.k. í orði, förum að samþykkja þetta svona einn, tveir og þrír án þess að hafa nokkurn tíma séð þennan fríverslunarsamning við Færeyinga? Það voru einhverjar óljósar fréttir sem birtar voru á sínum tíma í dagblöðum hér á landi um þennan samning og látið í veðri vaka að hann væri aðallega um landbúnaðarafurðir, eggjamarkaðinn, kjöt og álegg og eitthvað slíkt, lítið talað um sjávarútvegsmál, enda kom það glögglega í ljós á Norðurlandaráðsþinginu sem var haldið á Íslandi í október að Færeyingar eru mjög óánægðir með þennan fríverslunarsamning. Þeir komu þar í pontu og spurðu mjög gagnrýninna spurninga einmitt um þennan fríverslunarsamning og ég átti tal við nokkra færeyska þingmenn á Norðurlandaráðsþinginu þar sem kom í ljós að þeir eru mjög óhressir með þennan samning vegna þess að þeir telja að í hann vanti ákvæði varðandi viðskipti með fisk. Ég heyrði ekki betur en þeir óskuðu eftir því að þeir gætu komið hingað til Íslands og fengið að bjóða í fisk, kaupa hráefnið hér á Íslandi.

Hvaða afleiðingar skyldi það hafa ef útlendingar fá leyfi til að reka uppboðsmarkaði á Íslandi? Skyldi það hafa einhverjar afleiðingar fyrir útflutning á fersku hráefni, óunnu hráefni frá Íslandi? Ég hef svo sem ekki svörin á reiðum höndum hér og nú en þetta eru spurningar sem maður hlýtur að velta fyrir sér.

Ég hlýt að nota tækifærið hér og nú til að óska eftir því eða hreinlega gera kröfu um það að þetta mál verði ekki afgreitt úr sjávarútvegsnefnd nema fyrir liggi fríverslunarsamningur við Færeyinga þýddur á íslensku og helst kynntur fyrir Alþingi. Ég veit ekki betur en það sé skylda að kynna slíka samninga fyrir Alþingi, en ég er ekki lögfróður maður en mér þætti það ekki ólíklegt. Hér er árviss viðburður að talað sé um og mælt fyrir fiskveiðisamningi milli Íslendinga og Færeyinga í þinginu, hann kynntur fyrir þinginu og fram fari umræður um hann. Ég held að það hljóti að vera sanngjörn og eðlileg krafa eða maður skyldi a.m.k. ætla það að hér ættu að fara fram umræður um þennan fríverslunarsamning við vini okkar og frændur í Færeyjum.

Ég vil taka skýrt fram að ég er alls ekki á móti þessum samningi við Færeyinga, alls ekki. Það litla sem ég hef heyrt af honum sýnist mér vera mjög jákvætt. En nóg um það, virðulegi forseti. Þetta vekur upp ýmsar spurningar og ég hygg að þetta gefi jafnframt ástæðu til að skoða þessi lög um uppboðsmarkaði sjávarafla sem voru sett í fyrra og athuga hvort þau séu þá ekki gölluð með öðrum hætti en hér virðist augljóslega koma fram, það verði vandlega skoðað.

Síðan hafa menn talað um að heimila eigi útlendingum að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Ég er á móti því. Þetta er kannski á margan hátt ótímabær umræða því að ég held að útlendingar hafi í sjálfu sér ekkert voðalega mikinn áhuga á að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Ástand nytjastofna hér á landi er ekki það beysið eftir 25 ár með kvótakerfið að það sé svo sem eitthvað að selja í þeim efnum. Þar fyrir utan er fiskiskipaflotinn að mestu leyti orðinn afskaplega gamall og úr sér genginn að miklu leyti og í ofanálag fátt þar að finna nema kannski skuldir. Ég hef ekki orðið mikið var við það þau ár sem ég hef starfað í sjávarútvegi, ég tala nú ekki um þegar ég starfaði sem sjávarútvegsfréttamaður bæði hér á Íslandi og í Noregi, að útlendingar hefðu nokkurn minnsta snefil af áhuga á að fjárfesta í sjávarútvegi Íslendinga og ég tel að með því værum við að fara út á mjög háskalegar brautir.

Það hlýtur að vera, virðulegi forseti, að eftir alla þessa svokölluðu meintu hagræðingu geti sjávarútvegurinn varla verið í svo mikilli kreppu eftir að finna nýtt fjármagn, eða hvað? Á þetta ekki allt saman að vera svo frábært og stórkostlegt? Ég veit ekki betur. Ég get ekki séð þörfina á því, virðulegi forseti.

Ef ég dreg mál mitt saman í hnotskurn þá hlýtur maður að kalla eftir því að fá að sjá þennan fríverslunarsamning við Færeyinga. Maður hlýtur að skoða þetta og spyrja eðlilegra spurninga um hvort hér séu einhverjir útlendingar sem óska eftir því að fá að eiga eða fá leyfi til að reka fiskmarkaði á Íslandi. Þar af leiðandi hljótum við að kalla til fundar við okkur í sjávarútvegsnefnd ýmsa aðila sem tengjast þessum fiskmörkuðum í dag. Það er eðlilegur hlutur, einnig aðila sem þekkja vel til þessa fríverslunarsamnings við Færeyinga. Þetta mál verður að skoða mjög svo vandlega og læt ég þar með lokið a.m.k. fyrri ræðu minni um þetta mál.