132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Varnir gegn fisksjúkdómum.

596. mál
[21:24]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, eitt af þeim fimm frumvörpum sem liggja nú undir í tengslum við þá löggjöf sem á að taka við af gömlu lax- og silungsveiðilagabálknum.

Þegar ég skoða þetta frumvarp til laga um varnir gegn fisksjúkdómum rifjast upp fyrir mér sú mikla umræða sem við áttum hér í þessum sal fyrir réttum tveimur árum þar sem deilt var um hvort hér ætti að færa í lög tilskipun, ef ég man rétt Evróputilskipun, í tengslum við innflutning á norskættuðum laxi. Í frumvarpinu sem hæstv. ráðherra mælti fyrir hér á undan, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska, rek ég augun í 19. grein. Þetta fær mig aðeins til að staldra við, þetta hangir jú allt saman.

Þetta er skaðabótagrein þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ef sannað þykir að missir eldisfisks úr fiskeldisstöð valdi tjóni á hagsmunum veiðiréttarhafa, sem verndar njóta samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi bæta tjónið á grundvelli mats skv. VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. Hið sama á við um tjón annarra þeirra sem hafbeit, fiskeldi eða fiskrækt stunda.“

Þetta skaðabótaákvæði fær mig til að koma hér upp, staldra við og spyrja þeirrar spurningar hvort þetta ákvæði sé í raun og veru ekki með þeim hætti að það muni nánast ganga að fiskeldi dauðu hér á landi. Ef svo fer að eldisfiskur sleppur út, eins og til að mynda gerðist á Norðfirði í ágúst árið 2003, þar sem eitthvað um 3.000 eldislaxar sluppu út — ef við gefum okkar að svona lax væri sýktur til að mynda af einhverjum skæðum sjúkdómi, annaðhvort af sníkjudýrum eða bakteríusjúkdómi eða veirusjúkdómi, og mundi ganga upp í laxveiðiá og hugsanlega valda þar miklu tjóni, þá sýnist mér samkvæmt þeim ákvæðum sem koma fram hér að eldisstöðin væri skaðabótaskyld.

Við vitum að ef svona sjúkdómar fara að grassera í náttúrunni geta þeir orðið mjög skæðir. Við sjáum til að mynda dæmi um það frá reynslu Norðmanna þar sem bæði sníkjudýr en líka sjúkdómar hafa valdið miklum búsifjum í laxveiðiám, villtum laxastofnum, og það er talið öruggt að þetta hafi átt rætur að rekja til eldis, til fisks sem var í sjókvíaeldi. Við getum til að mynda talað um laxalús, sem hefur valdið Norðmönnum miklum skakkaföllum, en einnig um aðra sjúkdóma. Það hafa ítrekað borist fréttir af þessu í mörg ár, til að mynda frá Noregi, og þetta hefur farið mjög illa með villta stofna, eldislaxastofna í Noregi, valdið þar miklum hörmungum, erfiðleikum og miklu tjóni.

Ég veit þó ekki til þess, virðulegi forseti, að norskar eldisstöðvar hafi verið skaðabótaskyldar vegna þessa. Mig rekur ekki minni til þess að hafa séð neins staðar fréttir um það að norskt fiskeldi hafi nokkurn tíma verið dæmt til að greiða skaðabætur vegna þess að það hafi blossað upp sjúkdómar sem allir vita þó að hafa átt rætur að rekja til laxeldis og jafnvel verið sannað nánast í smáatriðum hvar smitið eða sníkjudýrið átti upptök sín.

Þessari hugsun sló niður hjá mér þegar ég var að lesa þessi frumvörp og mér þætti því vænt um að fá að heyra skýringar hjá hæstv. ráðherra varðandi þetta. Erum við ekki einmitt með þessum víðtæku bótaskilyrðum eða þessum lagatexta nánast að ganga að fiskeldi dauðu hér á landi? Ég hef nú verið einn af þeim sem hafa talað gegn sjókvíaeldi hér á Íslandi, ég tel að það sé á margan hátt mjög varasamt og skoðanir mínar hafa ekkert breyst í þeim efnum. Ég tel að villti laxinn sé miklu dýrmætari auðlind og við eigum að einbeita okkur að henni en láta þetta sjókvíaeldi í friði, það eru aðrar þjóðir sem geta gert það með miklu hagkvæmari hætti en við höfum gert. Látum Norðmenn og Færeyinga um sjókvíaeldið en hugum fyrst og fremst að okkar villtu laxastofnum, þeir eru miklu, miklu dýrmætari á allan hátt. En, eins og ég sagði áðan, þetta er mín spurning: Erum við ekki hér með að veita fiskeldinu rothögg?