132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fiskrækt.

613. mál
[22:24]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það liggur fyrir að hvað þessa gjaldtöku varðar eru um hana skiptar skoðanir eins og hér hefur reyndar komið fram fyrr. Ég hygg að Landsvirkjun hafi mjög barist gegn því að þurfa að borga þetta gjald til náttúrunnar og vilji að gjaldið færi af stóriðjunni sem mun koma til framkvæmda á árunum 2015–2020 og Landsvirkjun vilji heldur ekki að borgað sé af orkuöfluninni.

Landsvirkjun er auðvitað ekki með löggjafarvald. Hins vegar hefur ekki orðið niðurstaða þar sem samkomulag hefur náðst. Ég hef lýst því yfir að ég er auðvitað mjög sáttur við lögin eins og þau standa, að það séu þrjú prómill. Ég fer kannski á eftir betur yfir hvað það þýðir. En þetta snýr ekki bara að iðnaðarráðuneytinu, fjármálaráðuneytið kemur einnig þarna að, og eins og hv. þingmaður þekkir oft í slíkum deilum á milli ráðuneyta þar sem ekki næst niðurstaða er það forsætisráðuneytið sem stýrir vinnu til þess að ná saman um stefnumörkun sem þá verður lögð fyrir þingflokka og þingið á eftir. Sú leið er farin, eins og venja er til, að forsætisráðherra stýrir samstarfshópi þessara ráðuneyta þar sem ég auðvitað vonast til að sem allra fyrst náist niðurstaða í þessu deilumáli.