132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Staða efnahagsmála.

[14:03]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í ljósi ummæla hv. síðasta ræðumanns, Ögmundar Jónassonar, er rétt að taka fram að eins og alltaf hefur legið fyrir var auðvitað ljóst að þær miklu framkvæmdir sem eiga sér stað nú á Austurlandi og aðrar breytingar sem orðið hafa hér á landi á síðustu missirum mundu leiða til spennu í efnahagslífinu. Það hefur alltaf legið fyrir og ekkert nýtt í því.

Það sem ríkisstjórn getur gert við slíkar aðstæður er nákvæmlega það sem þessi ríkisstjórn hefur gert, þ.e. að halda sig við aðhaldssama stefnu í ríkisfjármálum, halda sig við það að aukning opinberra útgjalda verði mun minni en hagvöxturinn í þjóðfélaginu þannig að ríkið gangi ekki á undan með að auka á þenslu. Það er sú stefna sem ríkisstjórnin á að leggja áherslu á á næstu missirum, það er hennar framlag. Á sama hátt á ríkisstjórnin auðvitað líka að halda áfram að búa í haginn fyrir atvinnuvegina í landinu, búa í haginn fyrir áframhaldandi atvinnuuppbyggingu, m.a. uppbyggingu í orkufrekum iðnaði. Eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi verður auðvitað að gæta þess að tímasetja þær aðgerðir og framkvæmdir þannig að það rúmist innan ramma hagkerfisins en það þýðir ekki að það eigi að nema staðar.

Ef við veltum fyrir okkur hver úrræði stjórnarandstöðunnar eru, eins og þau hafa komið fram í þessari umræðu, þá boðar Samfylkingin annars vegar aðeins eitt. Það hefur aðeins eitt komið hér pósitíft fram í ummælum samfylkingarmanna sem innlegg í það sem við eigum að gera í efnahagsmálum og það er að taka upp evruna, sem væri raunar stórvarasamt í ljósi þess að hagsveiflan hér lýtur allt öðrum lögmálum en hagsveiflan í Evrópu. Peningamálastefna hér á landi (Gripið fram í.) mundi því ráðast af því hvaða aðstæður væru í Þýskalandi og Frakklandi en ekki af því hvað væri að gerast hér. Vinstri grænir halda sig hins vegar við það sama og áður, (Forseti hringir.) það á að tryggja stöðugleika með stöðnun (Forseti hringir.) en það er ekki það sem núverandi ríkisstjórnarflokkar vilja.