132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Merking matvæla.

633. mál
[13:01]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög þörf og góð fyrirspurn. Ég hnaut svolítið um það þegar hæstv. ráðherra sagði að skylt væri að merkja matvöru með þeim hætti að þar kæmi fram annaðhvort framleiðandi eða dreifiaðili. Þetta var svolítið óskýrt en ég held að mér hafi ekki misheyrst þegar hæstv. ráðherra sagði þetta. Þetta vakti furðu mína. Ég tel að það ætti að sjálfsögðu að gera kröfur um að það kæmi skýrt fram á allri matvöru hver sé framleiðandi og hvar sá framleiðandi sé staðsettur, hvaðan matvaran sé komin, hvar hún sé framleidd og líka hver dreifi henni til neytenda. Mér finnst þetta svo eðlilegt og sjálfsagt að mér finnst varla, liggur mér við að segja, ástæða til að það sé sett í reglur. Þeir sem selja þessar vörur eiga náttúrlega að finna það upp hjá sjálfum sér að gera slíkt. Það er bara sjálfsögð og eðlileg þjónusta við neytendur, virðulegi forseti.