132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu.

485. mál
[13:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það vekur athygli að ekki eru til upplýsingar um hversu oft mönnum hefur verið synjað um heimahjúkrun, hversu oft það hefur staðið í vegi fyrir því að fólk hafi verið útskrifað, og hversu oft menn hafa getað fengið takmarkaða þjónustu en ekki fulla þjónustu í heimahjúkrun og þess vegna ekki getað útskrifast. Það er alveg ljóst að ástandið er ekki nógu gott. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það hefði tafið útskrift um daga og jafnvel vikur. Þannig á það auðvitað ekki að vera. Við vitum að það er vegna þess að skortur er á starfsfólki, en það er líka vegna þess að ekki eru borguð nógu góð laun. Fólk fer þess vegna í betur borgaða vinnu og kannski vinnu sem hentar betur heimilisstörfum, því að oftast eru þetta kvennastörf.

Þetta sýnir líka hve mikilvægt er að samþætta alla þjónustu við aldraða og öldrunarsjúklinga. Á meðan þessi mál eru á hendi tveggja ráðuneyta eins og er í dag, annars vegar félagsmálaráðuneytis og hins vegar heilbrigðisráðuneytis, og síðan hluti á vegum sveitarfélaganna og annað á vegum ríkisins, þá verður þessi þjónusta ekki nægilega góð. Þess vegna er það forgangsmál að samþætta alla þessa þjónustu og bjóða fólki upp á þjónustu þannig að hægt sé að útskrifa það og það sé ekki fast inni á spítala án þess að fá útskrift vegna skorts á þjónustu heima við, eins og sá hópur sem ég nefndi í fyrri ræðu minni, þann fjölda sem fastur er inni á spítalanum í dag. Þarna getum við ráðið bót á og það er til hagræðis, bæði fyrir skattgreiðendur og sjúklingana sem lenda í þessu. Þar er verkefni sem þarf að hafa forgang.