132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Sjúkrahústengd heimaþjónusta fyrir aldraða.

484. mál
[13:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Hér kemur önnur fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra frá þeirri sem hér stendur sem segja má að sé í beinu framhaldi af fyrirspurninni sem við ræddum hér á undan.

Það er ljóst að það skortir upp á heimaþjónustu fyrir fyrrnefnda sjúklinga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, hina öldruðu sem ekki er unnt að útskrifa eða geta ekki komist heim um helgar og þurfa að vera inni á spítalanum þó að þeir séu á fimm daga deild vegna þess að ekki er hægt að veita þeim heimahjúkrun eða heimaþjónustu eins og kom fram í fyrirspurninni á undan og svarinu við henni

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort áform séu uppi um að koma á sjúkrahústengdri heimaþjónustu fyrir aldraða á vegum Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ef svo er, hvenær má gera ráð fyrir að hún verði að veruleika?

Landspítali – háskólasjúkrahús veitir sjúkrahústengda heimaþjónustu fyrir ákveðna sjúklinga en hún er ekki sérstaklega fyrir aldraða. Nú er ástandið þannig, eins og kom fram í svari við síðustu fyrirspurn, að þarna er pottur brotinn. Ég veit til þess að það hafa verið uppi hugmyndir undanfarin fimm ár um að koma á sjúkrahústengdri heimaþjónustu fyrir aldraða á Landspítalanum. En eins og við nefndum áðan er auðvitað ódýrara og hagkvæmara fyrir sjúklinginn að komast heim og fá þjónustu þangað.

Það kom líka fram hjá hæstv. ráðherra í svari áðan að Landspítalinn fylgist ekkert með því hvaða þjónustu sjúklingurinn fær eftir að hann er kominn heim. Það mundi auðvitað vera betra ef spítalinn veitti þessa sjúkrahústengdu heimaþjónustu. Þá væri hægt að fylgjast betur með því að viðkomandi sjúklingur sem búið er að útskrifa fái þá þjónustu sem menn telja að hann þurfi að fá.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort standi til að veita þessa þjónustu, sérstaklega í ljósi þess að verið er að borga háar fjárhæðir vegna þess að fólk er fast inni á spítalanum, vegna þess að ekki er hægt að útskrifa það, vegna þess að flytja þarf fólkið yfir á aðrar deildir þegar fimm daga deildirnar loka um helgar o.s.frv.

Ég tel persónulega að það væri mikil hagkvæmni í slíku fyrirkomulagi og það væri betra fyrir þessa sjúklinga sem hafa legið inni á spítalanum að fá þessa þjónustu. En ég kalla hér eftir svörum hæstv. ráðherra.