132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Sjúkrahústengd heimaþjónusta fyrir aldraða.

484. mál
[13:25]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hvort uppi séu áform um að koma á sjúkrahústengdri heimaþjónustu fyrir aldraða á vegum Landspítala – háskólasjúkrahúss og ef svo er, hvenær megi gera megi ráð fyrir hvenær hún verði að veruleika.

Undanfarin missiri hefur heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu verið efld með markvissum hætti, m.a. í framhaldi af samkomulagi við eldri borgara sem gert var árið 2002. Árið 2003 voru fjárframlög aukin um 46,9 millj. kr. Árið 2004 um 25,2 milljónir og árið 2006 um 58 millj. Þetta eru því tæplega 180 millj. kr. aukning til þessarar þörfu starfsemi á fáum árum til viðbótar því fjármagni sem fyrir var. Þar til viðbótar var varið fjármagni til að samþætta heimahjúkrun og þjónustu sveitarfélaga á heimilum og er það einnig í samræmi við skoðanir eldri borgara sem fram komu í fyrrnefndu samkomulagi.

Þá hefur verið lagt til fjármagn til að reka geðhjúkrunarteymi á vegum heimahjúkrunarinnar og einnig hefur heimaþjónusta á vegum Landspítalans fyrir þá einstaklinga sem þurfa sérhæfða hjúkrun verið aukin. Heimaþjónusta á vegum Landspítala hefur því verið fyrir þá sem þurfa sérhæfða heimahjúkrun, hvort sem þeir eru aldraðir eða ekki.

Þessi auknu framlög og stuðningur er í fullu samræmi við þann vilja okkar að efla þjónustu við hina veiku heima, þannig að hver og einn geti notið þess að búa eins lengi heima og kostur er. Flestum er ljóst að það er nauðsynlegt að halda áfram á þessari braut og efla þjónustu við sjúka í heimahúsum. Síðan má ræða um hvort þessi þjónusta eigi að eflast fyrst og fremst á vegum heilsugæslustöðva eða sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga, á vegum Landspítalans, einstakra hjúkrunarheimila eða annarra.

Almenna reglan hefur verið sú að heimahjúkrun heilsugæslustöðva hefur sinnt þessu starfi, eða Miðstöð heimahjúkrunar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að veita þessa almennu grunnþjónustu á vegum Landspítala – háskólasjúkrahúss en stjórnendur sjúkrahússins hafa kynnt ráðuneytinu hugmyndir og tillögur í því efni, þ.e. að auka heimaþjónustu sína. Þar er um að ræða sérhæfðari þjónustu en þá hjúkrun sem veitt er á vegum heilsugæslustöðva og er ætlunin að fylgja eftir sjúklingum sem útskrifast af sjúkrahúsinu. Þessi þjónusta mundi mæta þörfum veikari einstaklinga í heimahúsum en Miðstöð heimahjúkrunar í heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins gerir nú og gert er ráð fyrir mörgum heimsóknum hvern sólarhring og allan sólarhringinn. Þar mundi þá skapast tækifæri til að tappa af hluta þess hóps sem núna er á sjúkrahúsum en gæti verið heima með aukinni þjónustu. Í hugmynd stjórnenda Landspítalans er gert ráð fyrir að sjúklingar útskrifist frá sjúkrahústengdu heimaþjónustunni í önnur úrræði ef og þegar aðstæður þróast þannig eftir ákveðinn tíma og njóti þá t.d. heimahjúkrunar heilsugæslunnar og heimaþjónustu viðkomandi sveitarfélags.

Ég held að mjög brýnt sé að skoða það á næstunni hvernig þessu verður fyrir komið. En á sama tíma og manni finnst mjög eðlilegt og gott að sjúkrahúsin sinni sjúkrahústengdri heimaþjónustu viljum við ekki heldur koma upp tvöföldu kerfi. Einhver verður að sinna hinni almennu þjónustu. Hingað til hefur það verið svo að Miðstöð heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. heilsugæslan, hefur sinnt því. Frekar góð samstaða hefur verið um það að heilsugæslan sé það stig sem halda eigi utan um fjölskylduna og hina sjúku í heimahúsum. Ég vara þess vegna við því að við förum inn þá braut að stórefla heimahjúkrun frá sjúkrahúsum. Það má ekki ganga of langt í því þannig að hún fari að taka yfir hina almennu heimahjúkrun frá heilsugæslunni. En það eru full rök fyrir því að efla sjúkrahústengda heimaþjónustu þar sem sjúklingar eru mjög veikir og þurfa mjög sérhæfð úrræði, úrræði sem oft tengjast flóknum vélum, flókinni lyfjagjöf o.s.frv. sem ekki er hægt að veita í hinni almennu heimaþjónustu frá heilsugæslunni. Það þarf að stíga mjög varlega til jarðar að mínu mati í þessum málum til að enda ekki með einhvers konar tvöfalt kerfi, af því að ég held að það gagnist engum.