132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Sjúkrahústengd heimaþjónusta fyrir aldraða.

484. mál
[13:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mál og fagna því að ekki er mikil stemmning hér fyrir tvöföldu almennu kerfi heldur að hafa verði úrræðin mjög skilvirk og sérhæfð, annars vegar frá hendi sjúkrahúsanna og hins vegar almennari frá hendi heimahjúkrunar heilsugæslunnar.

Ég tel að það sé algjörlega rétt að við eigum ekki að koma upp tveimur almennum kerfum. Ég velti fyrir mér hugmyndinni sem kom fram hjá hv. þm. Ástu Möller um að hin sérhæfða sjúkrahústengda heimaþjónusta gæti farið alfarið til sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga. Ég sé reyndar ýmsa annmarka á því. Það má vel vera að hægt sé að auka hlut sjálfstætt starfandi hjúkrunarfræðinga þar, ég skal ekki segja til um það. En ég býst við að slík sérhæfð heimahjúkrun hljóti að þurfa að hafa sterk tengsl við sjúkrahúsið og þá lækna sem hafa unnið með sjúklinginn þar og að sú þekking berist áfram frá sjúkrahúsinu í gegnum heimahjúkrunarferlið til viðkomandi sjúklings.

Ég ímynda mér að þróunin verði sú að sérhæfð heimahjúkrun frá sjúkrahúsum verði aukin en ég undirstrika að gæta þarf þess að koma ekki upp tvöföldu kerfi. Það má vel vera að sjálfstætt starfandi aðilar geti komið að þessu starfi með sterkari hætti en þá þarf að vera alveg ljóst að þjónustan sé hagkvæm og að sjálfsögðu góð eins og hún hefur verið. Allt kostar þetta mikla fjármuni þannig að vanda þarf mjög vel til verka.