132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Álver og stórvirkjanir á Norðurlandi.

626. mál
[15:07]
Hlusta

Adolf H. Berndsen (S):

Frú forseti. Almennt finnst mér það vera mjög jákvætt að stjórnvöld nýti þá tækni að gera skoðanakannanir og ég held að margt hafi vel tekist til varðandi þær skoðanakannanir sem þarna voru framkvæmdar og ég held að almennt sé skynsamlegt að gera svona kannanir oftar til að kanna vilja íbúanna til stórra hagsmunamála.

Það var einnig og hefur ekki komið fram hér að iðnaðarráðuneytið stóð að því með Húnvetningum að gerð yrði könnun um viðhorf Húnvetninga til iðnaðarkosta og einnig til fleiri hagsmunamála sem ég held að sé mjög jákvætt. Þar var spurt út í önnur atvinnumál og hvað brynni á fólki og ég held að það muni nýtast mjög vel bæði sveitarfélögunum, atvinnuþróunarfélögunum og svo stjórnvöldum. Ég held því að það sé um margt jákvætt við að þróa frekar að stjórnvöld noti skoðanakannanir til að kanna vilja fólksins í landinu.