132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á vegum ríkisstjórnarinnar fer nú fram stefnumótunarvinna um framtíð heilbrigðisþjónustunnar. Innan heilbrigðiskerfisins má segja að allt sé á stöðugri hreyfingu. Umræðan hér á landi sem annars staðar er mjög hagsmunatengd enda eru heilbrigðismál einn stærsti útgjaldaliður hverrar þjóðar. Þeir sem vilja hagnast á heilbrigðisþjónustunni, bæði fjármálamenn og ýmsar heilbrigðisstéttir, þrýsta mjög á um að hún verði markaðsvædd. Hafa þessir aðilar haft talsverðan árangur og hefur heilbrigðisþjónustan smám saman verið að þokast út á markaðstorgið. Þjóðhagslega og félagslega skiptir okkur mjög miklu máli hvernig til tekst um skipulag heilbrigðisþjónustunnar og alla framtíðarstefnumótun á þessu sviði og er mikilvægt að byggt sé á þekkingu og reynslu. Hagsmunaaðilar mega ekki komast upp með að þröngva fram breytingum sér í hag nema þær séu sannanlega í almannahag.

Ýmsar nefndir hafa verið starfandi á vegum heilbrigðisráðuneytisins, skilað skýrslum og álitsgerðum og einnig drögum að lagafrumvörpum. Ég fagna yfirlýsingum um að ekki standi til að þröngva lagabreytingum í gegnum þingið í snarhasti eins og oft vill brenna við. Enda þótt margt sé ágætlega gert í þessari vinnu verður ekki sagt að ég sé sáttur við þá heildarniðurstöðu sem nú liggur fyrir. Í rauninni þarf þetta ekki að koma á óvart með hliðsjón af skipan í sumar starfsnefndir ráðuneytisins. Þar nefndi ég nefnd sem vann skýrslu um endurskilgreiningu verksviða innan heilbrigðisþjónustunnar en þessi nefnd, sem stundum er kennd við formann sinn, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, byggði hvorki á nægilegri pólitískri breidd né faglegri. Þetta er nefndin sem hvatti okkur til að taka til umræðu þann möguleika um fjármögnun heilbrigðiskerfisins að heimila einstaklingum að greiða hærra gjald en almennum sjúklingshlut nemur til að flýta þjónustu eða fá viðbótarþjónustu, eins og segir í skýrslu nefndarinnar. Þegar þetta var gagnrýnt við kynningu á skýrslunni nýlega var því svarað til af skýrsluhöfundum að þetta væri aðeins sett fram til umhugsunar og til umræðu, þetta væri ekki tillaga heldur einn af fleiri valkostum um fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Umræða um þetta væri þó nauðsynleg. Ég ákvað að taka þessari áskorun og óskaði því eftir þessari umræðu utan dagskrár.

Hæstv. forseti. Hér er á þrennt að líta. Í fyrsta lagi er þessi umræða ekki ný af nálinni en það er hins vegar pólitísk yfirlýsing í sjálfu sér að þessi mismununardraugur sé nú vakinn upp í umræðu um framtíðarþróun heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Það eitt að heimila einstaklingum að kaupa sig fram fyrir í röð er ávísun á mismunun jafnvel þó tekið sé fram að það eigi ekki að bitna á öðrum sjúklingum.

Í öðru lagi er þetta ekki einangrað dæmi um markaðsvæðingarhugmyndir í umræddri skýrslu. Ég fæ ekki betur séð en skýrslan byggi að uppistöðu til á slíkri markaðshugmyndafræði.

Í þriðja lagi er þess að geta að markaðsvæðingarhugsunin í þessari skýrslu endurspeglast að verulegu marki í frumvarpsdrögum um ný heilbrigðislög sem nú eru til skoðunar hjá hagsmunaaðilum. Þar er heilbrigðiskerfið skilgreint á grundvelli viðskipta, annars vegar er kaupandi þjónustu, hins vegar er seljandi þjónustu. Þetta er skipulagsgrundvöllur markaðsvæðingar heilbrigðisþjónustunnar og er fráhvarf frá þeirri hugsun sem byggt hefur verið á til þessa á Íslandi.

Til sanns vegar má færa að verið sé að laga lögin að einhverju leyti að breyttum veruleika en það er gengið miklu lengra en það. Hingað til hafa sjálfstætt starfandi læknar vissulega tekið sig saman en yfirleitt sem einyrkjar í samstarfi. Nú er verið að skjóta traustri lagastoð undir sjálfstætt starfandi sjúkrahús og hugmyndafræði samkeppni og útboða svífur ekki aðeins yfir vötnum heldur er komin í drög að frumvarpstexta fyrir ný heilbrigðislög á Íslandi.

Spurningar mínar til hæstv. heilbrigðisráðherra eru þessar:

1. Telur ráðherra það yfirleitt koma til greina að heimila að fólk kaupi sig fram fyrir í röð í heilbrigðiskerfinu?

2. Mun ríkisstjórnin leggja fram frumvarp um ný heilbrigðislög ef sýnt verður fram á að þau opni á enn frekari markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og þar með aukna mismunun frá því sem nú er?

3. Væri heilbrigðisráðherra reiðubúinn fyrir sitt leyti að efna til víðtækrar og rækilegrar umræðu á Alþingi um þau stefnumótunarvinnugögn sem nú liggja fyrir frá heilbrigðisráðuneytinu og frá Tryggingastofnun og byggja að meira eða minna leyti á markaðsvæðingarhugmyndum áður en ákvörðun er tekin um að leggja fram til afgreiðslu stjórnarfrumvörp sem á þeim eru reist?