132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:53]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Forseti. Nefnd á vegum heilbrigðisráðherra, kennd við Jónínu, leggur til að skoðað verði hvort hækka skuli þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu og hvort heimila skuli einstaklingum að greiða hærra gjald til að flýta þjónustu eða að fá viðbótarþjónustu.

Þessum hugmyndum höfnum við í Samfylkingunni alfarið. Erlendar rannsóknir og reynsla annarra þjóða sýnir að einkagreiðslur sem þessar eru ávísun á ójöfnuð. Með því að hleypa því fyrirkomulagi inn í okkar kerfi er samstaða þjóðarinnar um velferðarkerfi okkar sett í uppnám. Þessi leið styttir ekki biðlista en færir ríka fram fyrir þá efnaminni og leiðir líka til þess að þeir efnaminni fá lakari þjónustu.

Dýrustu kerfin sem við þekkjum eru einkagreiðslukerfi. Ég nefni þar Bandaríkin og Sviss. Við viljum ekki þannig kerfi. Þau heilbrigðiskerfi sem reynast best og mestur jöfnuður er í eru þau sem eru fjármögnuð að mestu leyti með sköttum eins og okkar kerfi.

Varðandi aukin þjónustugjöld þá er tvíeggjað að auka þau. Rannsóknir frá Kanada sýna að afleiðingarnar voru þær að aldraðir og efnaminni leituðu síður til læknis og í kjölfarið jókst heildarkostnaður við heilbrigðiskerfið. Fleiri rannsóknir sýna að hærri notendagjöld leiða ekki til lægri heilbrigðisútgjalda. Þau draga jafnmikið úr nauðsynlegri þjónustu og ónauðsynlegri.

Við höfnum þessum hugmyndum úr ranni Jónínu og ég tel ekki frekari umræðu þörf um þær. Ég heyri að ráðherra hafnar þeim líka. Við skulum greiða skatta til velferðarþjónustunnar eftir efnahag á meðan við erum frísk og höfum atvinnu. Við höfnum álögum á veikt fólk og einkagreiðslum. Við verðum að standa vörð um jöfnuð í heilbrigðisþjónustunni, um samhjálpina sem er undirstaða hennar og ég vona að að lokinni þessar umræðu verði þessar hugmyndir úr sögunni.