132. löggjafarþing — 92. fundur,  22. mars 2006.

Forgangsröð í heilbrigðiskerfinu.

[15:57]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mér finnst hafa orðið mikil tíðindi hér í umræðunni í dag. Formaður nefndarinnar sem gerði þessa skýrslu „Hver gerir hvað?“ virðist hafa hafnað þeim hugmyndum að menn geti greitt fyrir að komast fram fyrir í röðinni og að efnameiri eigi kost á betri þjónustu.

Mér finnst jákvætt að fólk sjái að sér en svo virðist sem sjálfstæðismenn vilji samt eitthvað halda í þessar hugmyndir. Hér hafa orðið nokkur tíðindi hvað það varðar en ég legg hins vegar áherslu á að við eigum ekki að sætta okkur við að fólk bíði veikt löngum stundum. Í því felst ákveðin hagkvæmni, eitthvað sem þjóðfélagið á að vinna að, að fólk komist strax í aðgerðir. Einnig eigum við að leggja áherslu á að fólk dvelji ekki lengur á stofnunum eins og Landspítala – háskólasjúkrahúsi en þörf krefur þegar önnur úrræði henta betur. Það kemur fram í skýrslu sem ég vitnaði til í fyrri ræðu minni að yfir 100 biðu eftir slíkum úrræðum í ársbyrjun 2005. Reikna má með því að sparast mundu 3 millj. kr. á hverjum einasta degi með því að lagfæra það. Ég tel að nýr hæstv. heilbrigðisráðherra ætti að horfa til þeirra þátta fremur en að velta fyrir sér hvort menn geti greitt fyrir að komast fremst í röðina.