132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:27]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Nefndin fékk á sinn fund fjöldann allan af gestum sem þetta mál varðar og eru þeir nánar tilgreinir á því þingskjali sem ég les hér upp. Jafnframt hafa nefndinni borist skriflegar umsagnir um málið frá fjölmörgum öðrum aðilum.

Með frumvarpinu er ríkisstjórninni falið að stofna hlutafélag sem taki við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Félagið verður að fullu í eigu ríkisins. Gert er ráð fyrir að eignir og skuldir núverandi fyrirtækis renni til hins nýja hlutafélags, Rariks hf. Skv. 9. gr. frumvarpsins verður allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku á öðrum rekstri greiddur af félaginu. Einnig mun Rarik hf. taka við einkarétti Rafmagnsveitna ríkisins til starfrækslu hita- og/eða dreifiveitna á orkuveitusvæði rafmagnsveitnanna.

Rökstuðningurinn fyrir þessum breytingum er m.a. að hlutafélagaform henti betur í því umhverfi sem starfsemin býr við og að reksturinn verði sveigjanlegri. Þá er talið að fjárfestingar og nýjungar í rekstri verði auðveldari í framkvæmd. Einnig takmarkast ábyrgð ríkissjóðs á rekstri fyrirtækisins við hlutafjáreign og ábyrgð stjórnenda eykst.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson og Katrín Júlíusdóttir hafa skrifað undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið. Hlynur Hallsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann andvígur áliti þessu. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Álitið var afgreitt frá nefndinni 7. mars 2006 og undir rita Birkir J. Jónsson, Kjartan Ólafsson, Helgi Hjörvar, Einar Oddur Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Gunnar Örlygsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Katrín Júlíusdóttir.

Hæstv. forseti. Nefndin fjallaði allítarlega um þetta málefni og ég tel að hér sé um mjög jákvæða breytingu að ræða. Nefndin lagði í meginatriðum til tvær breytingartillögur, annars vegar er snýr að stjórn hins nýja fyrirtækis, Rariks hf., en í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra var ekki kveðið á um fjölda stjórnarmanna. Töldu nefndarmenn eðlilegt að kveða á um það.

Er í 3. gr. frumvarps til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins lögð til svohljóðandi breyting, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.“

Í öðru lagi lagði nefndin fram breytingartillögu er varðar 10. gr. en greinin hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnaðarráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna og skal a.m.k. einn þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Hlutverk nefndarinnar er að meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Rafmagnsveitna ríkisins og skal nefndin leggja mat á hvert stofnfé hlutafélagsins skuli vera. Við mat þetta skal nefndin hafa fullan aðgang að öllum gögnum Rafmagnsveitna ríkisins og skulu stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins veita nefndinni þá aðstoð er hún óskar. Nefndin skal leggja niðurstöður sínar fyrir iðnaðarráðherra eigi síðar en þremur dögum fyrir stofnfund.“

Það var samhljóða álit okkar nefndarmanna, þeirra sem standa að þessu áliti, að fella bæri 10. gr. út þar sem við teljum að efnahagsreikningur fyrirtækisins gefi skýra og góða mynd af eignum, skuldum og rekstri fyrirtækisins og teljum því rétt að þessi grein verði felld út. Var það samþykkt í nefndinni. Þetta eru þær aðalbreytingartillögur sem nefndin öll leggur til.

Hæstv. forseti. Það hefur verið mikil umræða um raforkumálefnin. Árið 2003 urðu þáttaskil í sögu orkumála landsins með setningu nýrra raforkulaga sem komu til framkvæmda þann 1. júlí árið 2003. Með setningu þeirra laga voru skapaðar forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.

Hæstv. forseti. Ef við skoðum hvert rekstrarform annarra fyrirtækja á þessum markaði er kemur í ljós, og við könnumst við það margir hv. þingmenn hér á Alþingi, að við höfum breytt lögum m.a. um Orkubú Vestfjarða þar sem Orkubú Vestfjarða hf. tók til starfa árið 2001 og er því rekið í hlutafélagaformi. Hitaveita Suðurnesja er einnig hlutafélag. Orkuveita Húsavíkur er eignarhaldsfélag og þeim rekstri var breytt á síðasta löggjafarþingi og var samþykkt samhljóða nema af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lögðust gegn einkahlutafélagavæðingu Orkuveitu Húsavíkur. Norðurorka er einnig hlutafélagavædd þannig að allir aðilar sem eru í samkeppni á þessum markaði, fyrir utan Orkuveitu Reykjavíkur sem er sameignarfyrirtæki, eru með hlutafélagaformið í starfsemi sinni.

Það þykir nú almennt viðurkennt að hlutafélagaformið sé hentugra rekstrarform fyrir rekstur sem þennan en það rekstrarform sem nú er notast við, jafnvel þó ríkissjóður sé einn af hlutafélaginu, einkum þegar litið er til þess meginsjónarmiðs sem raforkulögin frá 2003 byggja á, sem er að reyna að stuðla að samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagaformið er mjög fastmótað og þrautreynt, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.

Með því að hlutafélagavæða Rarik hf. er verið að gera ábyrgð stjórnenda meiri. Ábyrgð stjórnenda mun aukast og jafnframt öll ákvarðanataka innan fyrirtækisins verður gerð auðveldari þar sem ekki þarf að sækja einstakar heimildir til ráðuneytis, sem segir sig sjálft að í samkeppnisumhverfi verður fyrirtæki eins og Rarik að hafa þau úrræði að geta tekið ákvarðanir með skjótum hætti. Því teljum við sem að nefndarálitinu stöndum að hlutafélagaformið sé ákjósanlegt hvað þetta varðar. Enda hafa nær öll önnur orkufyrirtæki sem eru í samkeppni við Rarik valið hlutafélagaformið.

Hæstv. forseti. Ég tel að mjög mikilvægt sé að frumvarpið verði að lögum. Það hefur komið mjög einarðlega fram að hálfu forsvarsmanna Rariks að mikilvægt sé að þessi breyting verði að lögum, helst á þessu vorþingi, til að gera rekstur fyrirtækisins sveigjanlegri. Ég hef trú á að breytingin muni leiða til þess að raforkuverð muni í framtíðinni verða hagstæðara, því sveigjanleiki í rekstri mun, eins og hjá Rarik hf., tryggja notendum Rariks lægri raforkureikninga í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga, að því teknu, að rúmlega 49.000 manns njóta þjónustu fyrirtækisins. Þess vegna er mikilvægt að gera fyrirtækinu kleift að starfa í því samkeppnisumhverfi sem mun á komandi árum lækka raforkureikninga landsmanna. Það er sannfæring mín.

En mjög mikilvægt er að við höfum þá til hliðsjónar hvernig rafmagnsverð og raforkuverð hefur verið að þróast víða um land. Ég tel mjög mikilvægt að því sé fylgt eftir. Niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði landsmanna á landsbyggðinni hafa aldrei verið hærri. Búið er að hækka hið svokallaða þak úr 35.000 kílóvattstundum upp í 40.000 kílóvattstundir og er með því búið að bregðast við ákveðinni gagnrýni.

Síðar verður, hæstv. forseti, reynslan að leiða í ljós hvort við höfum gert nóg í því að niðurgreiða húshitunarkostnað hjá landsmönnum. Hins vegar verðum við að hafa í huga að við verðum að mynda hvata til þess, m.a. hjá sveitarfélögum að koma á fót hitaveitu þar sem húsnæði er hitað upp með rafmagni. Við eigum að nýta þá auðlind sem okkur Íslendingum er gefin, heita vatnið, og því er mjög mikilvægt að löggjafinn gefi það svigrúm til handa sveitarfélögum að hagkvæmt sé að ráðast í hitaveitur vítt og breitt um landið þannig að niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar muni í framhaldinu lækka og fólk geti í notið heita vatnsins.

Við höfum dæmi um að Eskfirðingar hafa fundið heitt vatn og verið er að leggja hitaveitu á Eskifirði. Hefur ríkið komið þar myndarlega að með sjö ára framlagi vegna þeirrar hitaveitu sem gerir það að verkum að hagkvæmt er fyrir Eskfirðinga að ráðast í hitaveitu á Eskifirði.

Minnist ég þess þegar ég sé hv. þm. Guðmund Hallvarðsson að við þingmenn heimsóttum þessa ágætu hitaveitu síðasta sumar og var það ánægjuleg heimsókn í alla staði og glæsilegt mannvirki þar á ferð. Eins í Kelduhverfinu. Þar hefur fundist heitt vatn og líkur til að íbúar þar geti fengið aðgengi að heitu vatni. Það er nefnilega mjög mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að við stuðlum að því að sveitarfélög fari út í slíkar framkvæmdir, að bora eftir heitu vatni til hagsbóta fyrir íbúa í viðkomandi sveitarfélögum.

Hæstv. forseti. Umræðan um einkavæðingu á Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins á örugglega eftir að hljóma í þingsal fram eftir kvöldi, þykist ég vita. Hv. þingmenn Vinstri grænna hafa haldið því fram að það sé vilji Framsóknarflokksins að einkavæða Landsvirkjun. Engar fyrirætlanir eru uppi um af hálfu Framsóknarflokksins að selja Landsvirkjun. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn vill það.) Forsætisráðherra hefur lýst yfir ákveðnum efasemdum hvað það varðar, og einnig iðnaðarráðherra. Sjálfum hugnast mér ekki að selja meirihlutaeign í þeirri þjóðarauðlind okkar Íslendinga og ég tel að standa eigi vörð um þessa sameiginlegu orkuauðlind okkar.

Stefna Framsóknarflokksins er skýr. Nú þykist ég vita að hv. þm. Jón Bjarnason eigi eftir að halda margar eða a.m.k. eina ágæta ræðu hér í kvöld sem mun örugglega taka sinn tíma. Og þykist ég viss um að hv. þm. Jón Bjarnason mun halda því fram, eins og hann hefur gert áður í umræðunni og fer ég þar með rétt mál, að Framsóknarflokkurinn vilji einkavæða Landsvirkjun og þess vegna þá Rafmagnsveitur ríkisins. En eins og ég hef gert grein fyrir er það ekki á stefnuskrá Framsóknarflokksins.

Hæstv. forseti. Ég mælist til að frumvarpið verði að lögum á þessu vorþingi. Það er mjög mikilvægt mál. Það eru rúmlega 49.000 manns sem njóta þjónustu Rariks víða um land. Það er einlæg ósk starfsmanna fyrirtækisins, hvort sem það eru stjórnendur eða almennir starfsmenn, að farið verði í þessar breytingar. Þetta er yfirleitt fólk sem er búið að vinna í áratugi hjá Rarik, áður Rafmagnsveitum ríkisins, og það fólk veit fyllilega hvað þar er verið að ræða um. Við fengum starfsmannafélagið á fund iðnaðarnefndar. Þar mæltist þessi breyting vel fyrir.

Ljóst er og það er samdóma álit þeirra sem starfa við fyrirtækið að sú breyting sem allir þingflokkar, a.m.k. þingflokkar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar leggja til að farið verði í er að áeggjan stjórnenda fyrirtækisins og starfsmanna þess. Engar gagnrýnisraddir komu fram af hálfu forstjóra eða annarra starfsmanna á þessar breytingar heldur var lagt til að þetta yrði gert svo skjótt sem auðið er og við því viljum við bregðast. Hins vegar er afstaða eins stjórnmálaflokks hvað þetta varðar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, augljós og hefur verið það í nokkurn tíma. En það er almennt viðurkennt og var almennt viðurkennt af þeim gestum sem komu fyrir iðnaðarnefnd, og fengum við nú allmarga gesti á fund okkar, að hlutafélagaformið henti vel starfsemi og rekstri Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég held að hv. þingmenn Vinstri grænna séu nú hálfeinmana í þeirri afstöðu sinni. Að minnsta kosti kom ekki fram af hálfu gesta sem komu fyrir nefndina neinar aðrar hugmyndir en að þetta væri skynsamleg leið. Því er það lagt til í frumvarpi til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.