132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:02]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingar á Rafmagnsveitum ríkisins, þar sem aðalmarkmiðið með breytingunni er að breyta fyrirtækinu í hlutafélag og færa það úr þeim rekstri sem það hefur verið í, þ.e. úr stofnanarekstri. Það er aðalmál þessa frumvarps. Símamálin koma því ekki við.

Þar sem Vinstri grænir virðast alfarið vera á móti því að hægt sé að breyta stofnunum ríkisins sem eru í samkeppni á markaði til nútímahátta í rekstrarformi sem hæfir samkeppnisrekstri, eins og hér er gert, þá langar mig aðeins að inna hv. þm. Jón Bjarnason eftir nokkru.

Hann talar um að framsóknarmenn vilji einkavæða. Hann talar um að grænir vilji hafa þetta sem stofnun, staðnaða stofnun, það er orðfæri sem kemur. Hann talar um þennan mikla heiðarleika.

Hvers vegna flytja ekki Vinstri grænir frumvarp um ríkisfyrirtæki almennt? Eins og ríkisflugfélag, ríkisútgerð í sjávarútvegi, ríkisrekstur í samgöngum og ríkisrekstur í landbúnaði og afurðarstöðvum? Mér finnst að þetta framboð ætti að fylgja sínum málum eftir með því að leggja fram frumvarp um þess háttar hluti.

Mér finnst hins vegar ekki vera nokkur bragur á því að vera bara að ströggla með málþófi og snakki eins hér hefur verið gert síðasta klukkutímann eða tvo. Það þarf að skera úr, nákvæmlega eins og í vatnalagafrumvarpinu, þar urðu vatnaskil, og menn áttuðu sig á því hvað var aðalatriðið (Forseti hringir.) og mér finnst að hv. þingmaður eigi að svara þessu.