132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:13]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom fram með nokkuð margar spurningar í máli sínu um það málefni sem hér er til umræðu og mér finnst sjálfsagt áður en umrætt frumvarp verður að lögum að svara þeim spurningum sem fram komu.

Í fyrsta lagi, af því að ég á nú eina og hálfa mínútu eftir af þessu andsvari, vil ég að það komi fram að á fundi iðnaðarnefndar lagðist starfsmannaráðið ekki gegn þessu frumvarpi. Það kom alveg skýrt fram hjá starfsmannaráðinu og það var mikill vilji hjá stjórnendum fyrirtækisins að breyta löggjöfinni með þessum hætti. Forustumenn annarra orkufyrirtækja á markaðnum, Orkubús Vestfjarða, Hitaveitu Suðurnesja, Orkuveitu Húsavíkur ehf., Norðurorku, voru öll sammála um að hér væri um heppilegasta rekstrarformið að ræða. En fyrst þetta er álit þeirra aðila sem reka önnur orkufyrirtæki í landinu, og nú er komið á samkeppnisumhverfi sama hvað hver segir og mönnum getur líkað það misvel, þá spyr ég hv. þingmann að því: Fyrst þessi fyrirtæki hafa þetta forskot á Rarik, vill þá hv. þingmaður breyta rekstrarfyrirkomulagi annarra fyrirtækja á þessum markaði og gera þau að ríkisstofnunum eða stofnunum í eigu sveitarfélaga rétt eins og Orkuveitu Reykjavíkur eða vill hv. þingmaður að við gerum Rarik að Rarik hf.? Sem mér heyrist hann reyndar ekki vilja. Hv. þingmaður hlýtur að vilja hverfa úr þessu háeff-spori, þrátt fyrir að allir forustumenn þeirra fyrirtækja sem ég nefndi hér áðan séu sammála um að það sé heppilegasta rekstrarformið og sveigjanlegasta.