132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:49]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að fagna þessari fyrirspurn. Hún er mjög athyglisverð og vel rökstudd. Það er líka vert að velta því fyrir sér hvers vegna þurfi að gera þessar miklu breytingar á Austurlandi, á Egilsstaðaflugvelli.

Ég minnist þess að þegar ég fór um Eyjabakka á sínum tíma og skoðaði Kárahnjúka og þess háttar þá var ekkert mjög mikil umferð á Egilsstöðum, langt í frá. En það er mikill kraftur í atvinnulífinu á Austurlandi núna og því er mjög brýnt að takast á við þetta vandamál, vandamál sem á vissan hátt er jákvætt vegna þess að þarna er svo mikið að gerast. Sjálfur fór ég um þennan flugvöll á föstudaginn var og sá hvað er að gerast þarna. Mér finnst mjög athyglisvert og raunar jákvætt að félagar úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði skuli benda á þetta með þessum hætti og þar með hugsanlega viðurkenna þessa brýnu þörf og gera sér grein fyrir því hvers vegna hún er fyrir hendi.