132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Háskóli Íslands.

578. mál
[14:24]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það vekur athygli að hinum hraðmælta og knáa menntamálaráðherra hæstv. tókst að standa í stólnum í allar þær mínútur sem hún á hér án þess að svara neinni af þeim þremur spurningum sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson bar hér fram.

Hvernig hyggst ráðherra vinna að því að Háskóli Íslands nái þessu setta marki? Jú, sagði menntamálaráðherra, ég hef mótað mér þá stefnu að búa háskólanum þannig umhverfi að hann hafi faglegt sem fjárhagslegt bolmagn til að skipa sér í hóp hinna bestu. Hún hefði alveg eins getað sungið hér „Sáuð þið hana systur mína“.

Ráðherrann segir svo um fjárþörf háskólans að vissulega þurfi ríkið að koma til ef þetta eigi að verða að veruleika en fleira þurfi að gerast, það þurfi breytingar á innra skipulagi og fjármagn annars staðar frá. Á að skilja þetta svo að þetta daufa loforð, óljósa loforð um aukið fjármagn sé háð þeim skilyrðum að háskólinn fái fjármagn annars staðar frá og breyti innra skipulagi? Frá hverjum? Frá nemendum?