132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Jarðskjálftaupplýsingar í Ríkisútvarpinu.

603. mál
[14:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin. Ég verð þó að segja að ég er ekki alveg sammála síðasta ræðumanni um að Ríkisútvarpið hafi staðið sig óaðfinnanlega í þessu máli. Ég tel að Ríkisútvarpið hafi alls ekki staðið sig nægilega vel í málinu.

Þegar svona atburðir gerast er þörfin fyrir upplýsingar mjög mikil. Fólk finnur fyrir óöryggi og fólk vill fá að vita strax hvað var á ferðinni. Við verðum að athuga það að við búum í þannig landi þar sem við getum átt von á að miklar náttúruhamfarir geti gerst nánast hvenær sem er. Ég minni á að nú um helgina var mjög viðamikil björgunaræfing á Suðurlandi, Bergrisinn, þar sem æfð voru viðbrögð við Kötlugosi. Það eru miklar eldstöðvar í grennd við höfuðborgarsvæðið, allt umhverfis höfuðborgarsvæðið ef svo má segja, þannig að ég hygg að þegar slíkt gerist, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða jafnsterkan jarðskjálfta og þarna varð, beri Ríkisútvarpinu hreinlega skylda til að upplýsa almenning um hvað sé á ferðinni með öllum tiltækum ráðum. Það er ekki boðlegt að bíða með það í hálftíma að tilkynna um svona lagað, til að mynda á jafnmikilvægri útvarpsrás og Rás 1. Það er alls ekki boðlegt.

Ég held að þessi atburður eigi að verða til þess að Ríkisútvarpið og almannavarnayfirvöld verði látin fara yfir þessa hluti eina ferðina enn þannig að við verðum almennilega undirbúin næst þegar slíkt gerist. Það er nú svo að þegar svona ósköp hafa dunið yfir þá er fólk þegar orðið hrætt og það verður ekki hræddara við að fá réttar upplýsingar. Það er alveg á hreinu. Þessu máli verður að fylgja eftir. Ég mun sjálfur gera það og hef þegar gert með því að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmálaráðherra sem ég bíð í eftirvæntingu eftir að fá svör við við síðara tækifæri.