132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Höfundalög.

664. mál
[16:57]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingu á höfundalögum vegna innleiðingar ákvæða í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/84/EB frá 27. september 2001 um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks.

Tilskipunin var kynnt með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra á 128. löggjafarþingi 2002–2003. Þar kom fram að breyta þyrfti ákvæðum um fylgiréttargjald í tvennum lögum hér á landi, höfundalögum, vegna endursölu listaverka í atvinnuskyni og lögum um verslunaratvinnu vegna sölu listmuna á uppboðum.

Viðskiptaráðherra hefur þegar flutt frumvarp á yfirstandandi þingi vegna breytinga á lögum um verslunaratvinnu sem leiða af tilskipuninni sem var samþykkt sem lög nr. 117/2005, 19. desember sl.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 25. gr. b í höfundalögum þar sem segir m.a. að leggja skuli 10% gjald á málverk, myndir og listmuni sem seldir eru í atvinnuskyni. Skal gjaldið renna til listamanna eða erfingja þeirra en til vara til starfslauna handa myndlistarmönnum.

Með tilskipuninni, sem tekin hefur verið upp í EES-rétt, er fylgiréttargjald lækkað samkvæmt ákveðnum reglum úr 10% og allt niður í 0,25% á dýrustu verkunum. Rétt þykir að nýta heimild EES-gerðarinnar til að halda 10% gjaldi á þeim verkum sem seld eru fyrir fjárhæð undir 3.000 evrum, sem eru um 257 þús. kr. miðað við daginn í dag. Síðan fer gjaldið lækkandi í fimm þrepum. Hámark er sett á fylgiréttargjaldið sem skal ekki nema hærri fjárhæð en sem samsvarar 12.500 evrum. Megináhrif frumvarpsins er lækkun á fylgiréttargjaldi og þar með lækkun á verði listaverka til kaupenda á listmunum sem seldir eru í atvinnuskyni, þ.e. í listaverkagalleríum. Varðandi nánari upplýsingar vísa ég til efnis frumvarpsins. Samkvæmt núverandi skipulagi eru tekjur Myndhöfundasjóðs Íslands – Myndstefs, af fylgiréttargjaldi færðar sem ríkistekjur og grein gerð fyrir ráðstöfun þeirra í fjárlögum.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lögin hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að þegar málinu verður lokið eftir þessa umræðu verði því vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.