132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:52]
Hlusta

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ótrúleg umræða hjá fulltrúa Samfylkingarinnar, hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Það kom samfylkingarmönnum á óvart hve góðar umsagnir frumvarpið fékk. Það voru þeim mikil vonbrigði. Þeir eru vanir að lesa umsagnir úr ræðupúlti Alþingis en núna var bara lesin umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Félagi íslenskra náttúrufræðinga af því að aðrar umsagnir voru mjög jákvæðar.

Við erum að ræða um að 40 millj. kr., ef þær nýtast ekki á þessu ári, muni leggjast við þær milljónir sem ætlaðar eru til rannsókna á samkeppnisgrundvelli á næsta ári. Við erum að ræða um 50 milljónir til Hafró á árinu og 40 millj. kr. í samkeppnisrannsóknir. Við erum að ræða um 100 millj. kr. 2007 og a.m.k. 25 millj. kr. í samkeppnisrannsóknir.

Hvað er að gerast þá? Árið 2010 er a.m.k. höfuðstóllinn farinn. Við erum að ræða um 100 millj. kr. til Hafró til rannsókna til frambúðar, sem munu fylgja fjárlögum. Hvað gerir þetta? Þetta eru 180 dagar á ári á rannsóknarskipum Hafró. Mér finnst menn tala út úr kú í þessu máli. Menn hafa staðið í ræðupúlti Alþingis og rætt um að auka fé til hafrannsókna. Þegar til þess horfir að það verði aukið til frambúðar þá fara menn að snúa út úr. Ég skora á þá að lesa allar umsagnirnar um þetta frumvarp.