132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:29]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom að því í ræðu minni að ég teldi að engin fordæmi væru fyrir því að um það sé fjallað í lögum hvert eiginfjárhlutfall fyrirtækja eigi að vera þegar þau eru sett á laggirnar. Ég hlakka til að hv. þingmaður komi inn á það atriði í ræðu sinni og geti bent mér á það ef slík yfirlýsing frá mér er röng.

Auðvitað gildir annað þegar verið er að einkavæða fyrirtæki. Þá liggur þetta allt saman fyrir þegar verið er að selja fyrirtæki en ekki þegar er verið að breyta um rekstrarform. Hv. þingmaður má því ekki bera saman epli og appelsínur í þessu sambandi.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að verið er að endurmeta eiginfjárstöðu þessa félags. Hún verður trygg þegar það verður sett á laggirnar. Hv. þingmaður þarf ekki að óttast neitt um það. Enda er það ekki ætlun meiri stjórnarmeirihlutans (Forseti hringir.) að fara af stað með þetta fyrirtæki í gjaldþrot.