132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:32]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum ræðum við frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. og ætla ég að nota tækifærið og koma inn á nokkur atriði. Rætt hefur verið þó nokkuð ítarlega um málið í dag og ekki er ástæða til að fara yfir öll þau atriði. En mig langar aðeins að byrja á að segja að eins og við vitum þá hefur verið unnið að þessu frumvarpi lengi, eiginlega mjög lengi, og við höfum orðið vör við háværar kröfur, ekki síst frá Ríkisútvarpinu, um að breyta rekstrarformi þess. Það hefur þótt frekar stirt og talin þörf á breytingum. Margar leiðir hafa verið ræddar gegnum tíðina og svo ég segi bara fyrir hönd míns flokks þá hefur ýmislegt verið þar í deiglunni. Menn hafa ályktað um ýmis rekstrarform og lengi framan af var rætt um sjálfseignarstofnun en menn hurfu frá því þegar aðstæður fóru að breytast á markaði og umræðan um Ríkisútvarpið breyttist. Stóru tíðindin í þessu máli eru eflaust þau hvernig breytingar á fjölmiðlamarkaði hafa orðið til þess að breyta nokkuð viðhorfum fólks til Ríkisútvarpsins. Þá vísa ég til þess að það er meiri sátt um að Ríkisútvarpið sé útvarp okkar allra, útvarp allra landsmanna. Það er reyndar svipuð þróun og hefur verið að gerast í öðrum löndum í kringum okkur og ég held að sé enginn, a.m.k. ekki inni í þingsalnum einmitt núna, sem deilir um mikilvægi Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í.)

Til að fara aðeins nánar í það þá get ég sagt fyrir sjálfa mig að maður hafði alltaf þá hugmynd í kollinum framan af að það að háeffvæða Ríkisútvarpið væri það sama og að selja það. Sú umræða stóð lengi vel og það var kannski ekki síst vegna þess að fyrir mörgum árum voru uppi efasemdir um að Ríkisútvarpið ætti að vera í almannaeigu. En eins og ég sagði áðan tel ég að sú skoðun sé ekki lengur við lýði. Þegar maður fór að rýna í lögin eins og þau eru núna og við núverandi aðstæður þá er mjög auðvelt og einfalt að setja verðmiða á Ríkisútvarpið og selja það með manni og mús með einfaldri heimild í fjárlögum. Það er ekkert flóknara en það. Þannig að hefði verið meiri hluti fyrir því á Alþingi væri búið að gera það. Mér finnst í umræðunni að fólk geri sér ekki alveg grein fyrir þessari stöðu en svona er hún.

Að mínu mati er því stærsta breytingin í frumvarpinu fólgin í 1. gr. þess þar sem stendur skýrum stöfum, með leyfi forseta:

„Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Hingað til, þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í hlutafélög og ákveðið að selja ekki þann eignarhlut, hefur orðalagið í lögunum verið að sala hlutafjár væri óheimil, með leyfi forseta: „nema með samþykki Alþingis“.

Í þessu tilfelli er þessi fyrirvari numinn á brott til að leggja áherslu á að ekki eigi að selja Ríkisútvarpið hf. og jafnframt að tryggja að nýja lagasetningu þurfi frá Alþingi til að svo geti orðið. Þess vegna tekur 1. gr. af öll tvímæli um sölu Ríkisútvarpsins og það finnst mér vera stærstu tíðindin í þessu frumvarpi og mjög ánægjuleg. Það er í rauninni grunnurinn fyrir því að ég stend að þessu máli. Það er alveg ljóst að vilji beggja stjórnarflokka í þessu máli er skýr. Það stendur ekki til að selja Ríkisútvarpið og ég er þess reyndar fullviss að það mun lifa lengi í eigu okkar allra.

Virðulegi forseti. Eins og við munum voru uppi áform um það á síðasta þingi að breyta Ríkisútvarpinu í sameignarfélag eins aðila. Því er ekki að neita að við það fyrirkomulag voru gerðar athugasemdir af hálfu ESA og þá var velt upp öðrum rekstrarformum og einkahlutafélagsformið þótti ekki henta fyrir svo stórt fyrirtæki sem RÚV er, enda er það félagsform einkum sniðið að einstaklingsrekstri og rekstri smáfyrirtækja. Við samanburð á sjálfseignarstofnun og hlutafélagi þótti hlutafélagsformið henta betur enda gildir um hlutafélag ítarleg og skýr löggjöf, leikreglur eru þar allar vel þekktar og fjöldi fordæma til um hvernig leysa beri úr einstökum málum. Þá þótti hlutafélagsformið henta mun betur til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru um fjárhagslegan aðskilnað almannaútvarps frá samkeppnisrekstri. Við munum að það var mat ESA að sú leið að gera Ríkisútvarpið að sameignarfélagi gengi ekki nægjanlega langt þar sem í sameignarfélagsforminu fælist ótakmörkuð ábyrgð ríkisins á skuldbindingum RÚV.

Með þessum breytingum verður Ríkisútvarpið betur í stakk búið til að bregðast við samkeppni og takast á við hraðar breytingar sem eru að verða á fjölmiðlamarkaðnum. Við erum að skapa fyrirtækinu ramma sem er sambærilegur við þann sem samkeppnisfyrirtæki búa við, hlutafélagsformið. Innan þess hafa stjórnendur þess rýmri hendur til að taka mikilvægar ákvarðanir um reksturinn.

Virðulegi forseti. Í dag hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar haldið því fram úr þessum ræðustóli að Framsóknarflokkurinn standi ekki lengur vörð um Ríkisútvarpið. Ég er þessu algerlega ósammála. Til að byrja með vil ég vitna í stefnu Framsóknarflokksins um málefni Ríkisútvarpsins, en þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt. Hraða ber endurskoðun laga um Ríkisútvarpið þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verður endurskilgreint og mið tekið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði. Uppbyggingu og rekstri landshlutaútvarps verði haldið áfram og rekstrargrundvöllur tryggður.“

Þetta er ályktun okkar framsóknarmanna frá flokksþinginu í fyrra þannig að hún er nokkuð ný af nálinni. (Gripið fram í.) Hér segir að taka verði tillit til nýs fjölmiðlaumhverfis og það er nákvæmlega það sem verið er að gera. Vegna þess hve umhverfið hefur breyst, og við höfum séð þróunina hér, hefur myndast sátt um að ríkið eigi að eiga og reka Ríkisútvarpið. Sú staða var ekki uppi fyrir nokkrum árum. Grunntónn okkar er að það sé meginatriði að ríkið eigi fyrirtækið og standi vörð um það. Ég ítreka að við framsóknarmenn samþykktum ekki hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins fyrr en þessi sátt hafði myndast og þar með allt aðrar forsendur en áður.

Ég ítreka einnig að rekstrarformið er ekki aðalatriðið heldur hitt að tryggt sé að Ríkisútvarpið verði áfram í eigu þjóðarinnar. Það er enginn pólitískur vilji til að selja Ríkisútvarpið og verður vonandi ekki. Ég er þess fullviss að eftir að við höfum gengið í gegnum þessar breytingar muni Ríkisútvarpið lifa lengi í eigu þjóðarinnar allrar þar sem haldið verður áfram á þeirri faglegu braut sem útvarpið er þekkt fyrir og hlutafélagavæðing þess mun gera því kleift að ganga í endurnýjun lífdaga.