132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Með hvaða hætti á að efna þau loforð? spyr þingmaðurinn. Að sjálfsögðu með því að funda með utanríkismálanefnd. (ÖJ: Það var ekki gert.) Þannig er það gert. Ég hef mætt í tvígang persónulega á fundi utanríkismálanefndar á undanförnum tveim mánuðum til að fara yfir þetta mál. Það hefur ekkert vantað upp á það af minni hálfu að mæta á fundi nefndarinnar til að gera grein fyrir þessum málum og ég mun að sjálfsögðu halda því áfram. Annars bendi ég þingmanninum á að það er umræða um utanríkismál í fyrramálið. Þar mun gefast tækifæri til að ræða þessi mál.

Ég hef alla tíð frá því að ég tók sæti í utanríkismálanefnd og frá því að ég var þar formaður lagt ríka áherslu á að utanríkisráðherrar á hverjum tíma ættu gott samstarf við nefndina og það hef ég sjálfur reynt að gera. Hér er mál á dagskrá fundarins á eftir sem varðar líka hagsmuni Íslands, sem ég mun tala um í utanríkismálanefnd þegar það skýrist nánar, Svalbarðamálið, og þannig verður það meðan ég er utanríkisráðherra.