132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

MFS-einingin á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

563. mál
[14:12]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Langflestar fæðingar eru eðlilegar fæðingar og eðlilegur hluti í lífi hverrar konu. Ég tel að við verðum að horfa á þá þjónustu út frá því og varast að sérhæfa þjónustuna um of. MFS-hugmyndafræðin er mjög góð og henni er fylgt eftir að mestu leyti innan heilsugæslunnar. En einnig eru sjálfstætt starfandi ljósmæður sem hafa fram að þessu getað unnið samkvæmt þeirri hugmyndafræði.

Ég tel að við verðum á sama tíma að horfa á fæðingar úti um allt land og varast það að dregið sé úr fæðingarþjónustu vítt og breitt um landið og eins eigum við að horfa til fleiri valmöguleika en til hátæknisjúkrahúsanna (Forseti hringir.) og fæðingardeildarinnar (Forseti hringir.) sem var mjög þægileg og góð fyrir fæðandi konur.