132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lánveitingar til stjórnenda fyrirtækja.

656. mál
[19:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég dreg þá ályktun af svari ráðherra að stjórnendur fjármálafyrirtækja ráði allt of miklu hér á landi um lagasetningu. Ég vil vísa til þess sem hæstv. ráðherra sagði fyrr á þessum vetri sem svar við fyrirspurn minni að í Danmörku og Svíþjóð væru ákvæði sem banna lán til framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja á öðrum kjörum en almennt tíðkast. Ég er ekki að tala um að banna eigi lán til stjórnenda fjármálafyrirtækja, heldur að þeir fái þau á sömu kjörum og aðrir sem fá lán í bankanum. Af hverju í ósköpunum ættu stjórnendur að fá lán á öðrum kjörum en aðrir?

Ég batt vonir við það sem hæstv. ráðherra sagði þegar hún svaraði fyrirspurn minni fyrr á þessum vetri en þá sagði ráðherrann orðrétt:

„Á hinn bóginn telur ráðuneytið rétt að kanna hvort núgildandi ákvæði 57. gr. laga um fjármálafyrirtæki geti talist fullnægjandi til að ná þeim markmiðum sem að var stefnt og getið var hér að framan.“

Er það svo að hæstv. ráðherra hefur látið skoða þetta ákvæði og telur hún að það sé fullnægjandi eða telur hún það sem ég tel rétt að gera, að rétt sé að endurvekja það ákvæði sem var til hér fyrir nokkrum árum og fellt var brott úr lögum, um að lánveitingar til stjórnenda fjármálafyrirtækja skuli á engan hátt frábrugðnar sambærilegri fyrirgreiðslu og til annarra viðskiptavina? Þetta var í lögum hér á landi, hvernig sem á því stendur að það var fellt úr gildi fyrir nokkrum árum síðan, og þetta er í lögum í Danmörku, eins og ráðherrann nefndi fyrr á þessum vetri, og í Svíþjóð. Ég spyr ráðherra beint út: Af hverju í ósköpunum og hver eru rökin fyrir því og skýringin að stjórnendur fái lán í þeim fyrirtækjum sem þeir stjórna á allt öðrum kjörum en aðrir viðskiptavinir? Það er í fyllsta máta óeðlilegt og ég verð að lýsa vonbrigðum með það, virðulegi forseti, ef það er niðurstaða ráðherra að lögin skuli standa óbreytt og að þessir stjórnendur fái áfram einhver sérkjör á lánum sínum umfram aðra.