132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:34]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er árvisst að umræður hefjist um stofnstærð þorsksins þegar Hafrannsóknastofnun birtir fyrstu upplýsingar úr svokölluðu togararalli, þ.e. upplýsingar um stofnvísitölu þorsksins. Ég vil hins vegar vara menn við því að draga allt of víðtækar ályktanir af þeim upplýsingum sem þar liggja fyrir.

Tökum dæmi frá árinu 2004, þá kom fram að stofnvísitalan hefði hækkað um 25%. Stofnstærðarmatið sem kom tveimur mánuðum síðar leiddi í ljós hækkun upp á 11,6%. Aflareglan leiddi af sér 4 þús. tonna minnkun þannig að það er varhugavert að reyna að draga allt of víðtækar ályktanir af þessum upplýsingum. Auðvitað gefa þær ákveðnar vísbendingar en þær eru ekki til þess fallnar að draga svo víðtækar ályktanir, hvorki varðandi aflaheimildir eða stærð þorskstofnsins. Það sem vantar á er bæði upplýsingar um aflagreinda vísitölu og aldursgreindan afla. Það liggur ekki fyrir fyrr en í vor. Það er fyrst þá sem við getum dregið hinar raunverulegu ályktanir enda kemur fram í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar, sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, með leyfi virðulegs forseta:

„Ekki er beint samband á milli stofnvísitölu þorsks í stofnmælingu og viðmiðunarstofns fjögurra ára og eldri sem notaður er í aflareglu til að reikna aflamark.“

Stofnvísitalan í fyrra var t.d. 50% hærri heldur en árið 2001. Enginn gladdist yfir því enda engin ástæða til þess. Það var ekki ástæða til þess vegna þess að við megum ekki draga allt of miklar ályktanir. Það eru hins vegar athyglisverðar ábendingar í þessari skýrslu, m.a. þær að við sjáum að 2005-árgangurinn er við meðaltal, sem er býsna ánægjulegt í ljósi þess, eins og hv. þingmaður nefndi, að við höfum séð hvern árganginn á fætur öðrum sem hefur verið langt undir því. Það eru líka ánægjulegar fréttir af því að vísbendingar virðast um betra fæðuaðgengi þorsksins varðandi loðnuna. Við sjáum að það er í samræmi við upplýsingar og fréttir sem berast daglega til mín frá sjómönnum allt í kringum landið um mikil og góð aflabrögð.

Kjarni málsins er þessi: Við höfum ekki verið að ná árangri, það er alveg hárrétt. En hins vegar er ýmislegt athyglisvert sem komið hefur fram. Við höfum brugðist við. Ég hef verið að draga úr möskvastærð og draga úr loðnuveiðum, reyna að minnka þær til að bæta fæðuaðgengi þorsksins. Vonandi verður það til einhverrar hjálpar.