132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun.

[10:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta var snjallt ráð hjá hv. þm. Magnúsi Þór til að stytta mál sitt að benda bara á heimasíðu sína. (Gripið fram í.) Ég hvet hann til að gera það oftar svo hann geti flutt hér stuttar og snarpar ræður. (Gripið fram í: Ýmsir eiga nú ágætar heimasíður.) Ýmsir eiga nú heimasíður, það er rétt.

Virðulegi forseti. Það er von að menn taki þetta mál upp í ljósi þeirra frétta sem komu í gær. En eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur bent á er ekki beint samband á milli þeirra talna og síðan endanlegs mats á veiðistofninum.

En hinu er ekki að leyna að það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því hvernig til hefur tekist hvað varðar uppbyggingu þorskstofnsins. Því þar hefur satt að segja hvorki gengið né rekið á síðastliðnum 20 árum.

Það er hins vegar ekki hægt að fullyrða að þar með talið sé öll fiskveiðistjórn árangurslaus. Við sjáum að árangur hefur náðst í öðrum tegundum og jafnvel miklu meiri en menn hafa ætlað eins og t.d. varðandi ýsustofninn. Þar hefur verið leyft að veiða meira af ýsu í mörg ár en ráðlagt hefur verið af fiskifræðingunum en engu að síður er stofninn ákaflega sterkur og fer stækkandi. Þannig að það er ekki hægt að slá fram alhæfingum í þessu efni.

Það sem ég held að við ættum að einblína á er hvað það er sem er öðruvísi varðandi þorskstofninn og aðra stofna. Þar held ég að séu fáein atriði sem við ættum að skoða.

Í fyrsta lagi er þorskstofninn sá sem er langverðmætastur. Það þýðir að veiðin í hann og álagið hefur verið mest, ásóknin í að veiða hrygningarstofninn hefur verið mest þar. Ég held að það sé mjög alvarlegt mál.

Í öðru lagi held ég að netaveiðar hafi verið mjög slæmar, sérstaklega á þeim tíma sem þorskurinn er að hrygna. Ég held að friðunin sé ekki nógu mikil á þeim tíma.

Þá held ég líka, virðulegi forseti, að loðnuveiðar séu mjög slæmar fyrir viðgang þorskstofnsins, svo ég nefni þrjú atriði sem ég tel (Forseti hringir.) að séu öðruvísi hvað varðar þorskstofninn en aðra fiskstofna.