132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[15:24]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Vissulega á hæstv. heilbrigðisráðherra að hafa áhyggjur sem fagráðherra. Spjótin standa á fjármálaráðherra í þessari deilu. Vandamál og rekstur dvalar- og hjúkrunarheimilanna í dag og heilbrigðisstofnana um land allt verður ekki leyst og faglegar kröfur verða ekki reistar nema að fjármálaráðherra, og félagsmálaráðherra líka, komi þar að. Hæstv. heilbrigðisráðherra á að hafa áhyggjur því að faglegar kröfur er ekki hægt að reisa vegna fjárskorts.

Það var fyrirsjáanlegt að þessi staða kæmi upp. Hitt var aftur á móti ekki fyrirsjáanlegt að lægstlaunaða fólkið í heilbrigðisþjónustunni mundi hafa það þor og þann dug sem það hefur í dag til að rísa upp og láta ekki bjóða sér þetta lengur. Hvers vegna lætur það ekki bjóða sér þetta lengur? Vegna þess að launamunurinn á milli þeirra sem starfa hjá sjálfseignarstofnunum og stofnunum sem reknar eru á vegum sveitarfélaga er orðinn allt of mikill hjá lægst launaða starfsfólkinu. Ég dáist að kjarki og þori Reykjavíkurborgar að ríða á vaðið, og fengu forráðamenn höfuðborgar okkar skömm í hattinn fyrir að brjótast út úr þeim samningum sem giltu og hafa gilt um lægstlaunuðu stéttirnar sem eru að mestu kvennastéttir.

Það verður að gera þessum stofnunum kleift að annast eðlilegan rekstur. Þetta vita flestir nema hæstv. ríkisstjórn virðist ekki vita það. Það þarf að grípa til ráðstafana núna, það er ekki hægt að bíða eftir fjárlögum næsta árs. Þá verða þeir starfsmenn farnir sem núna eru um það bil að ganga út, og fleiri starfsstéttir líka. (Forseti hringir.) Það veldur mér miklum vonbrigðum, hæstv. forseti, að hvorki fjármálaráðherra (Forseti hringir.) né forsætisráðherra hafa látið í sér heyra við þessa umræðu og gefið einhverjar vísbendingar um hvað fram undan væri.