132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:51]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var ánægjulegt að heyra frá einum uppreisnarmannanna núna. Ég gat ekki betur greint viðhorf hans en svo að hann væri nú ekki fjarri því að styðja þetta mál ef honum litist svo á hér eftir umræðuna. En þau voru harðari skeytin sem flugu frá nokkrum félögum hans fyrir helgina og þó að þessi hluti byltingargengisins hafi nú lýst því yfir að hann muni líklega styðja málið þá kalla ég að sjálfsögðu enn eftir sjónarmiðum þeirra sem fóru hér harðast gegn máli byggðamálaráðherra og hleyptu því í mikið uppnám og ollu sjálfsagt nokkrum titringi og óskunda á stjórnarheimilinu nú um helgina. Það hefur í litlu verið úr því bætt með þessu andsvari hjá hv. þingmanni, hann hlýtur að koma hér upp í ræðu og fara yfir það í smáatriðum og grundvallaratriðum hvernig byggðastefnu hann vill reka fyrst hann gaf til kynna að hann væri ekki sannfærður um þetta frumvarp frá byggðamálaráðherranum.

Hann vísaði sérstaklega í fræga umsögn um byggðaáætlun frá Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem lagt var til að Byggðastofnun yrði lögð niður og mikill hamagangur varð úr því og þeir vildu meina að hún gegndi engu hlutverki lengur. Hv. þingmaður hlýtur því að fara yfir það með okkur á eftir hvernig framtíðarsýn hans í þessum málum er og fagna ég því eindregið að hann sá sér fært að vera við þessa umræðu í dag eftir það uppþot sem uppreisn þeirra félaganna olli hér fyrir nokkrum dögum síðan.