132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[17:53]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í framhaldi af þeirri ræðu sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hélt áðan langar mig til að spyrja hann um eitt atriði sem hann nefndi en það var að sveitarfélögin og fólkið úti á landi vildi ekki virkjanir og stóriðju. Nú háttar þannig til að aðilar á Reykjanesinu bregðast við breyttum atvinnuháttum þannig að þeir vilja byggja álver í Helguvík, eins og margoft hefur komið fram, og ég held að það sé einn þáttur sem við þurfum að fara yfir.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í 6. gr. þessa frumvarps, þar sem talað er um byggðakort fyrir Ísland, hvort hann þekki hvað það byggðakort nái langt yfir það kjördæmi sem við komum úr, Suðurkjördæmi. Það skiptir verulega miklu máli fyrir þessa byggðaáætlun og það starf sem við erum að vinna hér hvar byggðakortið á Íslandi fæst samþykkt. Það skiptir verulega miklu máli.

Það eru fleiri héruð en Suðurnesin sem hafa áhuga á orkufrekum iðnaði og orkuvinnslu og úrvinnslu úr orku í kjördæmi okkar, Suðurkjördæmi, og mér finnst að það eigi ekki að gera neitt lítið úr því. Þetta er stórmál og getur haft gríðarlega mikil áhrif rétt eins og virkjunin og álverið sem er verið að byggja á Austurlandi. Þannig að við skulum bara fara vel yfir alla þessa þætti og nálgast þá eins og ég nefndi hér varðandi stóriðjuna og virkjanir sem skipta máli fyrir landið allt og ekki síst Suðurkjördæmið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann enn og aftur hvort honum finnist byggðakortið ekki skipta máli.