132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sem hv. þingmaður vitnaði nákvæmlega til sé niðurstaða skýrslu sem unnin var fyrir mig af ráðgjafarfyrirtæki en ekki beint mín orð. (Gripið fram í.) Nei, það getur verið, ég hef þá ekki hlustað nógu vel á hv. þingmann. En hvað það varðar að leggja niður Byggðastofnun þá verð ég að segja að stofnanir eru ekki aðalatriðið í mínum huga heldur starfsemin sem þar fer fram. Það skiptir mig engu máli hvort byggðamál eru til umfjöllunar í stofnun sem heitir Byggðastofnun eða í annarri stofnun sem heitir Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það skiptir máli að vel sé unnið og það er markmiðið með þessu frumvarpi.