132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[22:02]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda. Frumvarpið hefur það að markmiði að skapa skilyrði fyrir Ísland til að standa við skuldbindingar sínar í samræmi við ákvæði rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og ákvæði Kyoto-bókunarinnar við samninginn. Frumvarpið byggist á tillögum nefndar sem í áttu sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Nefndin fékk á fund til sín aðila frá Umhverfisstofnun, landbúnaðarráðuneytinu, Orkustofnun, Hagstofunni, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Náttúruverndarsamtökum Íslands og landvernd. Auk þess kynnti formaður nefndarinnar drög að frumvarpinu á fundi með sérstakri samráðsnefnd iðnaðar- og umhverfisráðuneytis með fulltrúum álfyrirtækja á Íslandi.

Í frumvarpi þessu er lagt til að lögbundin verði ákvæði um þrjú meginatriði sem skapa forsendur fyrir stjórnvöld til að standa við skuldbindingar sínar varðandi Kyoto-bókunina. Í fyrsta lagi er að finna í frumvarpinu ákvæði um bókhald, um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.

Í öðru lagi hefur það að geyma ákvæði um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir og í þriðja lagi er kveðið á um upplýsingaskyldu fyrirtækja sem losa verulegt magn gróðurhúsalofttegunda. Áður en ég fer nánar í efni frumvarpsins vil ég fara stuttlega yfir þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina við hann.

Umhverfisráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd samningsins hér á landi en sérstök samráðsnefnd átta ráðuneyta er starfandi sem ber ábyrgð á framkvæmd stefnumörkunar um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og fjallar um mál sem tengjast samningnum og framkvæmd hans.

Nú stendur yfir endurskoðun á stefnumörkun Íslands frá 2002 og er áætlað að henni ljúki á þessu ári. Markmið Kyoto-bókunarinnar er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fyrst og fremst í iðnríkjunum. Bókunin tekur til sex gróðurhúsalofttegunda og kveður á um að aðildarríki skuli takmarka losun þeirra miðað við losun árið 1990. Fyrsta skuldbindingartímabil bókunarinnar er fimm ár, 2008–2012. Mikilvægasti þáttur Kyoto-bókunarinnar er ákvæði um lagalega bindandi mörk fyrir losun gróðurhúsalofttegunda á því tímabili að því er varðar þau ríki sem getið er um í I. viðauka við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Þessum ríkjum er gert að takmarka sameiginlega og hverju um sig losun gróðurhúsalofttegunda svo að samanlögð árleg losun þeirra á skuldbindingartímabilinu verði að meðaltali 5,2% minni en viðmiðunarárið 1990. Þessu markmiði skulu þau ná með því að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og með því að binda kolefni með ræktun en einnig er heimilt að nýta svokölluð sveigjanleikaákvæði bókunarinnar sem lúta að verslun með heimildir á milli landa og fjármögnun verkefna sem draga úr losun í öðrum ríkjum.

Losunarheimild Íslands er 10% aukning miðað við losun árið 1990. Að auki hefur því verið lýst yfir að Ísland hyggist nýta sér ákvæði 14/CP.7 frá 7. aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins í Marrakesh sem oft hefur verið nefnt íslenska ákvæðið.

Ákvæðið heimilar að losun koldíoxíðs frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvers sem hefur starfsemi eftir 1990 og leiðir til meiri en 5% aukningar í útstreymi á skuldbindingartímabili bókunarinnar verður haldið utan við losunarheimild hennar eftir að losunarheimildir viðkomandi ríkis hafa verið fullnýttar. Ákvörðunin nær aðeins til þeirra ríkja þar sem losun var minni en 0,05% af heildarlosun koldíoxíðs iðnríkjanna árið 1990. Ströng skilyrði eru fyrir því að lönd geti tilkynnt einstakar framkvæmdir samkvæmt ákvörðun 14/CP.7. Gerð er krafa um notkun endurnýjanlegrar orku, að notkun hennar leiði til samdráttar í losun á heimsvísu, að besta fáanleg tækni sé notuð og að bestu umhverfisverndaraðgerða sé gætt við framleiðsluna. Ákvörðunin nær einungis til losunar koldíoxíðs að ákveðnu hámarki sem er 1,6 millj. tonna á ári að meðaltali á skuldbindingartímabilinu.

Losunarheimildir Íslands eru því tvíþættar, annars vegar má almenn losun gróðurhúsalofttegunda ekki aukast meira en 10% frá 1990 til 2008–2012, en hins vegar má losun sem fellur undir þau skilyrði, sem tiltekin eru í ákvörðun 14/CP.7, ekki vera meiri en 1,6 milljón tonn af koldíoxíði á ári að meðaltali.

Frumvarpið tekur ekki til allra þátta samningsins en er ætlað að lögfesta nauðsynlega grunn til að tryggja að við stöndum við skuldbindingar okkar. Bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis er grunnþáttur í framkvæmd loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókunarinnar. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að reglur um framkvæmd bókhaldsins verði lögfestar.

Umhverfisstofnun, áður Hollustuvernd ríkisins, hefur haldið utan um bókhald vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingar kolefnis í gróðri og jarðvegi hér á landi frá árinu 1996. Umhverfisstofnun skilar árlega í gegnum umhverfisráðuneytið tölulegum upplýsingum um losun og bindingu til skrifstofu loftslagssamningsins ásamt ítarlegri skýrslu. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar í gegnum árin á þessu bókhaldi í ljósi nýrra alþjóðlegra reglna um útreikninga af þessu tagi og nýrra og betri upplýsinga um ástand mála hér á landi. Bókhald Íslands má teljast í meginatriðum gott þó vissulega megi bæta ýmis atriði. Á skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar sem hefst árið 2008 verða gerðar ítarlegri kröfur en áður um gæði bókhaldsins. Nauðsynlegt er því að styrkja það enn frekar og er lagasetning um framkvæmd þess liður í þeirri viðleitni.

Ýmsir aðilar leggja til vinnu og upplýsingar fyrir bókhaldið og skýrsluna, einkum Orkustofnun og Landbúnaðarháskóli Íslands ásamt öðrum stofnunum landbúnaðarins. Gerð er tillaga í 2. mgr. 4. gr. um að Landbúnaðarháskóla Íslands verði falið að afla nauðsynlegra upplýsinga um bindingu kolefnis í jarðvegi og góðri. Einnig er lagt til að Landbúnaðarháskólinn beri ábyrgð á að taka saman upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og skila til Umhverfisstofnunar. Það verður í höndum Orkustofnunar að taka saman upplýsingar um orkumál sem nauðsynlegar eru vegna bókhaldsins.

Lagt er til að Umhverfisstofnun semji leiðbeiningar um hvernig skila eigi gögnum til stofnunarinnar og að gerð slíkra leiðbeininga verði í samráði við Orkustofnun og Landbúnaðarháskólann. Mikilvægt er að þróa aðferðir varðandi bókhald um gróðurhúsalofttegundir í náinni samvinnu við viðkomandi aðila. Lagt er til í 5. gr. frumvarpsins að sett verði ákvæði um skráningarkerfi en Íslandi ber samkvæmt Kyoto-bókuninni að setja á fót slíkt kerfi fyrir losunarheimildir áður en skuldbindingartímabilið hefst árið 2008. Skráningarkerfið heldur utan um þær heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda sem Ísland mun hafa á skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar. Það er rafrænn gagnagrunnur þar sem heimildir eru skráðar í sérstökum einingum sem hver um sig samsvarar einu tonni af ígildum koldíoxíðs. Þessar einingar eru sá gjaldmiðill sem alþjóðlegt kerfi úthlutunarheimilda og viðskipta með heimildir og úreldingu þeirra mun byggjast á. Öllu landskerfi mun tengjast miðstöð á vegum skrifstofu loftslagssamningsins í Bonn sem á að ganga úr skugga um að allar úthlutanir og færslur á einingum samræmist skuldbindingum viðkomandi ríkis samkvæmt Kyoto-bókuninni. Landskerfi geta tengst innbyrðis í gegnum miðstöðina og skráð tilflutning á heimildum á milli ríkja. Ríki geta einnig úthlutað hluta af heimildum sínum í kerfinu til einstakra fyrirtækja eða annarra aðila og geta slíkir aðilar þá sjálfir átt í viðskiptum í gegnum kerfið.

Á einfaldan hátt er hægt að lýsa muninum á milli bókhaldsins og skráningarkerfisins þannig að bókhaldið sé eins og bókhald fyrirtækja þar sem fært er inn debet og kredit en skráningarkerfið sé banki sem geymir raunveruleg verðmæti, í þessu tilviki losunareiningar.

Þriðja atriðið sem lagt er til í frumvarpi þessu er að skylda fyrirtæki sem losa meira en 30 þúsund tonn af ígildi koldíoxíðs á ári til að skila nákvæmum upplýsingum um losunina til Umhverfisstofnunar ár hvert. Þetta er mikilvægt til að tryggja að sem nákvæmastar upplýsingar fáist um losun frá stærstu verksmiðjunum sem losa gróðurhúsalofttegundir en eins og allir vita er vægi einstakra stórra verksmiðja í heildarlosun Íslands stórt. Lagt er til að ákvæðið nái yfir atvinnurekstur sem hefur starfsleyfi í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í starfsleyfi er atvinnurekstri sem getur haft í för með sér mengun veitt heimild til ákveðinnar starfsemi og losunar. Mat á því hvort atvinnurekstur fellur undir kröfur þessarar greinar byggist á þeirri hámarksstarfsemi sem starfsleyfi heimilar og losun frá atvinnurekstrinum í fullum afköstum miðað við starfsleyfi. Kröfur um upplýsingagjöf munu ná bæði yfir atvinnurekstur sem hefur gilt starfsleyfi við gildistöku laganna og yfir nýja starfsemi.

Ég vil einnig árétta að meiri kröfur eru gerðar til upplýsinga um losun frá fyrirtækjum sem falla undir ákvörðun 14/CP.7 en almennt gerist. Þannig er mælst til þess að aðildarríki með verkefni sem uppfylla skilyrði ákvörðunarinnar veiti árlegum skýrslum upplýsingar um útstreymi frá iðnaðarferlum á hverja framleiðslueiningu, heildarútstreymi frá iðnaðarferlum þessara verkefna og mat á þeim samdrætti í útstreymi sem leiðir af notkun endurnýjanlegrar orku í þessum verkefnum. Hinu svokallaða íslenska ákvæði fylgja því einnig skyldur.

Til að setja niður nánari ákvæði um upplýsingaskyldur fyrirtækja er lagt til að ráðherra setji reglugerð að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar um þær upplýsingar sem atvinnurekstri sem fellur undir lögin ber að skila til stofnunarinnar. Reglugerð þessi skal byggjast á leiðbeiningum vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, um losunarkvóta. Mikilvægt er að Umhverfisstofnun hafi samráð við þá aðila sem ber að skila inn upplýsingum við undirbúning reglugerðarinnar en rétt er að taka fram að Umhverfisstofnun hefur átt góða samvinnu við stóriðjufyrirtæki um að fá tölur um losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum. Hins vegar þurfa stjórnvöld skýra heimild til að gera kröfu um upplýsingar um losun og til að fara yfir upplýsingar til að staðfesta áreiðanleika þeirra.

Að lokum er lagt til að Umhverfisstofnun sé heimilt að taka gjald fyrir vinnu við yfirferð upplýsinga um losun sem fyrirtækjum sem falla undir 1. mgr. ber að skila til stofnunarinnar.

Rétt er að taka það fram í lokin að Ísland stendur vel hvað varðar skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Frumvarpið sem hér er lagt fram hefur ekki að geyma tillögur um stjórnvaldsaðgerðir til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda umfram þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til. Því er fyrst og fremst ætlað að skjóta lagastoðum undir það kerfi sem Ísland þarf að koma sér upp til að sýna alþjóðasamfélaginu stöðu sína gagnvart skuldbindingum Kyoto. Ég tel þó rétt að skoða það enn frekar hvort þörf er á lagalega bindandi ákvæðum til að tryggja að losun gróðurhúsalofttegunda fari örugglega ekki upp fyrir heimildir Íslands, þótt að óbreyttu séu ekki líkindi til þess. Nefndin sem skilaði drögum að frumvarpi þessu hefur þess vegna fengið umboð til að starfa áfram og koma, ef ástæða þykir til, með tillögur að stjórntækjum til að gera stjórnvöldum kleift að stýra betur losun gróðurhúsalofttegunda á komandi skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar. Í þeirri vinnu verða m.a. skoðaðar ýmsar þær leiðir sem aðrar þjóðir hafa farið í þessum efnum, svo sem losun útstreymisheimilda og heimild til að krefjast starfsemi sem losar umtalsvert magn gróðurhúsalofttegunda um mótvægisaðgerðir, t.d. með bindingu kolefnis eða kaupum á heimildum.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.