132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[22:17]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að þetta frumvarp skuli loks komið fram. Ég tel að það hefði átt leggja fram fyrir löngu. Auðvitað hafa stjórnvöld vitað síðan Kyoto-bókunin gekk í gildi að nauðsynlegt yrði að setja reglur af því tagi sem frumvarpið kveður á um. Ég sakna þess reyndar að ekki skuli vera meira í frumvarpinu. Ég hefði gjarnan viljað sjá gengið lengra í fyrsta skrefi en ég fagna því að nefndin skuli fá umboð til að starfa áfram og gera þá áframhaldandi tillögur um á hvern hátt við komum til með að standa við skuldbindingar okkar, hvernig við getum farið að því að standa við það meginmarkmið loftslagssamningsins að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi einhverja tímaáætlun fyrir störf nefndarinnar í þessum efnum. Hvað gerir hún ráð fyrir að það taki nefndina langan tíma að taka næsta skref í málinu, sem ég hefði haldið að allir þeir sem fylgjast með þessum málum hefðu viljað sjá tekið núna?