132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[12:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst halda einu atriði til haga. Eftirlaunafrumvarpið svokallaða var í andstöðu við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð (Gripið fram í: Ekki Steingrím.) og ég fyrir mitt leyti vil lýsa efasemdum um þær lagabreytingar sem hér voru til umfjöllunar, það sem kallað er einhver lágmarksbreyting á þessum lífeyrissjóðalögum. Ég hef ákveðnar efasemdir um það. Það hefði það í för með sér t.d. að einstaklingur sem færi til starfa í Ríkisútvarpinu, skulum við segja, gæti ekki jafnframt tekið eftirlaun en þegar búið væri að breyta því í Ríkisútvarpið hf. þá væri honum greið leið að fá slík laun. Ég segi að menn þurfi að hugsa þetta dæmi til enda. Ég hef mjög miklar efasemdir um þetta, eitthvert svona smink, einhvers konar andlitslyfting á þessi hörmulegu lög. Það er bara til ein leið hvað þetta varðar. Það er að afnema lögin. Það er engin millileið til. Bara burt með lífeyrisfrumvarpið, burt með þessi sérkjör. Sá kattarþvottur sem menn eru að tala um hér er ekki mér að skapi, aldeilis ekki. Það á hins vegar að taka þessi lög upp með rótum og afnema þau alveg. Það er enginn millileikur til, það er engin millilending til í því máli, engin. Burt með lögin og þessir aðilar eiga að sjálfsögðu að fara inn í þann lífeyrissjóð sem er þeim opinn, þ.e. A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, og eiga að sæta sömu kjörum og aðrir sem starfa hjá hinu opinbera. Það gerist með því að fella þessi lög úr gildi. (Gripið fram í.) Það gerist ekki með því að fella þessi lög úr gildi, góði minn, var kallað utan úr sal, þá breytum við lögunum þannig að þessir aðilar fái innkomu í þann sjóð. Það er hið eðlilega í þessu máli.

Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra að það er mjög mikilvægt að það ríki sátt um launakjör þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna. Ég hef flutt frumvarp þar sem lagt var til að launakjör þjóðkjörinna fulltrúa verði á endanum borin upp til samþykktar af Alþingi. Það byggi ég á þeirri hugsun að það eigi undir öllum kringumstæðum að vera hægt að draga til ábyrgðar þá sem ákvarða launin. Það gerist í kjarasamningum. Þar eru samninganefndir, hvort sem það er fulltrúa atvinnurekenda, þess opinbera eða einkarekinna, eða launafólks. Í báðum tilvikum er hægt að draga þessa aðila til ábyrgðar. Það er það sjónarmið sem ég hef viljað halda mig við og tala fyrir á Alþingi.

Hins vegar eru mörg önnur sjónarmið uppi í þessu máli og nú hefur verið leitað eftir samstöðu um þá lausn sem liggur á borðinu. Ég mun fyrir mitt leyti styðja hana þótt ég vilji gera grein fyrir þeirri grundvallarafstöðu sem ég hef til þessara mála. En það hefur verið leitað eftir því að skapa um þetta sátt og þverpólitísk nefnd hefur verið að störfum sem hefur síðan borið málið undir þingflokka. Það hefur fulltrúi okkar gert og ég fyrir mitt leyti mun styðja þetta mál þó ég hafi viljað koma hingað upp til að gera grein fyrir þessu meginsjónarmiði sem ég hef.

Með þessu frumvarpi ná menn því fram, sem ég held að hafi verið breið samstaða um, að fækka þeim sem heyra undir þessa skipan, hvort sem það var Kjaradómur eða kjaranefnd. Þeim verður greinilega fækkað og þeir þá færðir yfir á svið almennra kjarasamninga. Það þykir mér eðlilegt.

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins gera grein fyrir þessum meginsjónarmiðum við þessa umræðu. Ég geri ráð fyrir að þetta mál fari síðan til nefndar eins og hæstv. forsætisráðherra gat um og fái afgreiðslu í þinginu fyrir vorið.